Yfir 300 manns hafa nú sagt upp störfum á Landspítalanum og ekki verður séð að spítalinn geti starfað ef til uppsagnanna kemur. Þetta segir Lilja Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri skurðlækningasviðs og staðgengill forstjóra spítalans í samtali við Spegilinn á RÚV í kvöld.
Langflestir eru hjúkrunarfræðingar, en þeir eru 258 talsins. 25 geislafræðingar, 26 lífeindafræðingar og tvær ljósmæður hafa sagt upp. Uppsagnirnar taka gildi á bilinu 1. september til 1. október.
Atkvæðagreiðsla um nýjan kjarasamning hjúkrunarfræðinga klárast á hádegi á morgun og það verður ljóst klukkan tvö á morgun hver afstaða hjúkrunarfræðinga er. Samningurinn var undirritaður eftir að lög voru sett á verkfall hjúkrunarfræðinga og félagsmanna í BHM.
Flestir telja að samningurinn verði felldur í atkvæðagreiðslunni sem þýðir þá að gerðardómur verður skipaður og mun ákveða laun þeirra. Á morgun verður líka kveðinn upp dómur í máli BHM gegn ríkinu um lagasetningu á verkföll félagsmanna þeirra.
Í Speglinum kemur fram að 525 manns hafa fengið vottorð um staðfestingu á starfsleyfum hjá landlækni það sem af er ári. Þessi vottorð eru nauðsynleg fyrir heilbrigðisstarfsfólk sem hyggst vinna í útlöndum. Til samanburðar voru 432 leyfi af þessu tagi gefin út allt árið í fyrra.
Lilja segir það ljóst í sínum huga að það verði að leysa deilurnar því spítalinn muni ekki geta starfað komi til uppsagnanna.