Það var mat margra að Gunnar Bragi Sveinsson hefði ekki byrjað vel í starfi utanríkisráðherra.
Strax eftir að hann tók við var lagt upp með að hafna Evrópusambandsaðild en að stórefla samstarf við Norðmenn og Evrópu á vettvangi EES-samningsins. Samskiptin við Evrópusambandið voru hins vegar, vægast sagt, klúðursleg frá fyrsta degi og Ísland var skilið eftir þegar Norðmenn og Færeyjar gerðu samning við sambandið um skiptingu sameiginlegs makrílkvóta, svo fátt eitt sé nefnt.
Það má hins vegar gefa Gunnari Braga að hann hefur vaxið umtalsvert í starfi. Hann hefur til að mynda séð til þess að Ísland tekur virkan þátt og er í forgrunni í kynjajafnréttisverkefnum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og var skeleggur þegar hann fordæmdi hernaðaraðgerðir Rússa á Krímskaga í fyrra.
Á síðustu dögum hefur jákvæðum afrekum hans síðan fjölgað þó nokkuð. Ráðuneyti hans náði loksins að klára samning um framlög í uppbyggingarsjóð EES, oft kallaður aðgöngumiðinn að innri markaði Evrópu, Gunnar Bragi steig fram með skynsamleg ummæli um að Íslendingar ættu að endurskoða hvalveiðistefnu sína vegna þess hversu illa hún sé liðin í alþjóðasamfélaginu og á síðustu dögum hefur hann staðist gríðarlegan þrýsting frekra hagsmunaaðila í sjávarútvegi um að hætta stuðningi við viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna íslenskra viðskiptahagsmuna.
Í gær steig hann síðan skref sem margir áttu kannski ekki von á og gagnrýni Amnesty International opinberlega fyrir að vilja afglæpavæða kaup og sölu á vændi. Gunnar Bragi virðist því vera að vaxa í starfi. Ólíkt mörgum samráðherrum sínum sem eru í meiriháttar vandræðum með að koma sínum áherslum í verk.
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.