Á síðustu dögum hafa orðið miklar deilur um aðferðir við lestrarkennslu yngstu barna í grunnskóla. Fjölmiðlar hafa flutt af því fréttir að samkvæmt Menntamálastofnun hafi árangur í stærðfræði, íslensku og lesskilningi versnað í skólum sem innleitt hafa verkefnið „Byrjendalæsi“.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri sem vinnur með mörgum grunnskólum um land allt að eflingu byrjendalæsis hefur vísað þessum fullyrðingum á bug og áréttar að aðferðafræðin hafi skilað góðum árangri.
Menntamálastofnun hefur á hinn bóginn vísað gagnrýni Miðstöðvar skólaþróunar á bug og stendur við niðurstöður sínar.
Erfitt er fyrir foreldra yngstu barna og almenning í landinu að átta sig á því hvernig þetta mál er vaxið.
Hvað er byrjendalæsi?
Byrjendalæsi samvirk kennsluaðferð sem byggð er á alþjóðlegum rannsóknum og þróuð á vegum Miðstöðvar skólaþróunar. Alls hafa um 80 skólar víðsvegar um landið innleitt Byrjendalæsi.
Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngunni, bæði þau sem eiga eftir að læra stafina og hin sem eru farin að lesa sér til skemmtunar. Verkefnið leggur áherslu á að unnið sé heildstætt með tal, hlustun, lestur og ritun, auk þess sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði er hluti af ferlinu.
Þessi heildstæða nálgun er þannig nokkuð frábrugðin eldri aðferðum sem leggja meiri áherslu á lestrartæknina sem slíka. Vitaskuld er lestrartækni þó mikilvægur hluti byrjendalæsis og kennarar hafa alla tíð leitast við að tengja lestur við aðra þætti íslenskukennslu.
Hvað segja gögnin?
Þegar meta á áhrif verkefna á borð við byrjendalæsi er mikilvægt að fram fari bæði innra símat þeirra sem starfa að verkefninu og reglubundið ytra mat óháðra aðila á lykilmælikvörðum.
Innra símat er innbyggt í aðferðafræði byrjendalæsis og gögn Miðstöðvar skólaþróunar sýna fram á framfarir nemenda og ánægju með verkefnið. Staða nemenda er metin þrisvar á ári og ítarlegar niðurstöður ligga fyrir um framvindu verkefnisins milli ára, skóla og kynja.
Minnisblað Menntamálastofnunar sýnir að þeir skólar sem lengst hafa unnið samkvæmt aðferðafræði byrjendalæsis í 1. og 2. bekk standa sig ekki betur en aðrir skólar í stærðfræði, íslensku og undirþættinum lesskilningi á samræmdum prófum í 4. bekk. Raunar bendir minnisblaðið til þess að þessir skólar skori að jafnaði 1 punkti lægra á sextíu punkta skala á áttunda ári eftir upptöku byrjendalæsis.
Miðstöð skólaþróunar hefur bent á að staðlar niðurstöður samræmdra prófa nái til afar takmarkaðs hluta markmiða byrjendalæsis, sýni einungis breytingar á innbyrðis stöðu skóla milli ára og allmargir nemendur skipti um skóla milli 1. og 4. bekkjar. Umtalsverðar sveiflur og fremur lítil fylgni séu á frammistöðu einstakra skóla yfir tíma og meðaltal tiltekins skóla á fjögurra ára tímabili skýri aðeins 16% frammistöðu átta árum síðar. Loks séu ýmis tæknilegri vandkvæði sem ekki verða rakin hér.
Menntamálastofnun hefur ekki gefið álit á niðurstöðum innra mats Miðstöðvar skólaþróunar.
Birtingar á ritrýndum fræðilegum vettvangi eru forsenda þess að niðurstöður geti talist áreiðanleg vísindaleg þekking. Hvorki niðurstöður Miðstöðvar skólaþróunar né Menntamálastofnunar hafa verið birtar á slíkum vettvangi.
Hvaða hagsmunir eru í húfi?
Mestu máli skipta að sjálfsögðu hagsmunir íslenskra skólabarna af því að unnið sé markvisst að því að vekja áhuga þeirra á lestri, kenna þeim lestrartækni og auka ánægju þeirra af lestri. Aðrir aðilar hafa jafnframt hagsmuni sem gott er að hafa í huga í umræðunni.
Menntamálaráðherra hefur boðað umbyltingu í lestrarkennslu sem krefst þess að núverandi samstarfi verði hætt og nýtt fyrirkomulag byggt frá grunni.
Miðstöð skólaþróunar hefur áratuga reynslu af samstarfi við sveitarfélög og skóla um þróun í skólastarfi og fyrirætlanir menntamálaráðherra um að færa þróunarstarf í lestrarkennslu undir Menntamálastofnun myndu gera samstarfið að engu.
Menntamálastofnun hefur fengið fjárveitingu frá ríkinu til að ráða fjölda starfsmanna til að taka við lestrarráðgjöf í öllum skólum landsins. Menntamálastofnun er því beggja vegna borðsins sem hagsmunaaðili og óháður matsaðili.
Hvað ber að gera?
Síðustu daga hefur orðið mikill og alvarlegur trúnarbrestur milli foreldra, kennara, lestrarráðgjafa, embættismanna og stjórnmálamanna. Við það verður ekki unað.
Þótt upplýst umræða á síðum dagblaðanna sé mikilvæg í lýðræðissamfélagi er bein og milliliðalaus samskipti sérfræðinga forsenda slíkrar umræðu. Þeir aðilar sem eiga að stunda ytra mat verða að kynna sér markmið, aðferðir og innra símat þeirra sem starfa á vettvangi, og skólafólk verður að kynna sér niðurstöður ytra mats með opnum, gagnrýnum huga.
Deilur um kosti og galla mismunandi aðferða við lestrarkennslu verða aðeins útkljáðar á ritrýndum vettvangi menntavísindanna.
Umfram allt verður að forðast að pólitískar keilur séu slegnar á kostnað íslenskra skólabarna.
Kjartan Ólafsson er lektor við Háskólann á Akureyri, og Þóroddur Bjarnason er prófessor við Háskólann á Akureyri.