„Í stuttu máli má segja að móttaka flóttamanna í stórum stíl væri stórt og ærið verkefni sem mun verða kostnaðarsamt og krefjast samvinnu margra. Til lengri tíma virðast þó áhrifin vera jákvæð fyrir efnahagslífið.“
Þetta segir í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag þar sem fjallað er um móttöku flóttafólks út frá efnagslegu sjónarhorni. Í greiningunni segir að þegar stór hópur fólks komi til landsins, eins og líkur hafa aukist á að verði, þá hafi hann efnahagsleg áhrif bæði til skemmri og lengri tíma. „Staða flóttamanna er fyrst og fremst mannúðarmál og þröngt efnahagslegt sjónarhorn verður aldrei ráðandi þáttur í ákvarðanatöku um móttöku þeirra. Þar munu aðrir og mikilvægari þættir ráða. Engu að síður er áhugavert og mikilvægt að skoða hver efnahagslegu áhrifin geta verið af móttöku flóttamanna og er það efni þessa markaðspunktar,“ segir greiningardeildin.
Móttöku flóttafólks myndi fylgja talsverður kostnaður fyrst um sinn og nefnir greiningardeildin sem dæmi kostnað við ferðalagið til Íslands, útvegun húsaskjóls, koma börnum í skóla og stuðningur af ýmsu tagi. Til lengri tíma sé hins vegar um að ræða nýja íbúa á Íslandi sem eftir atvikum skili verðmætum til þjóðarbúsins líkt og aðrir.
Lýðfræðilegur munur á Sýrlandi og Íslandi
Lýðfræðilegar aðstæður á Íslandi og í Sýrlandi eru bornar saman í greininni, en gert er ráð fyrir að handahófskenndur hópur Sýrlendinga kæmi til landsins. Aldurssamsetning hans yrði þá talsvert önnur en Íslendinga. „Rúmlega 30% þeirra væru börn 0-14 ára, en á Íslandi er hlutfallið 20%. Aftur á móti væri mjög lítill hluti flóttamanna 65 ára og eldri, eða 4%. Í samanburði við Ísland er Sýrland fátækt land og var landsframleiðsla á mann áður en stríðið braust út einungis einn áttundi af því sem gerist á Íslandi. Menntastig er einnig talsvert lægra en á Íslandi og er 80% þjóðarinnar læs. Aftur á móti var skólasókn almenn fyrir stríð og gátu börn vænst að ganga í skóla í 12 ár. Þó er menntastig þjóðarinnar frekar lágt miðað við það sem gerist á Íslandi. Samandregið má því segja að hingað kæmi ungt fólk með frekar litla menntun.“
Sé gert ráð fyrir að hingað komi til lands flóttamenn sem þegar eru komnir til Evrópu, þá má búast við að hópurinn yrði að jafnaði menntaðri og efnaðri en meirihluti Sýrlendinga. Ástæðan er sú að ferðalag þeirra frá heimalandi sínu til Evrópu er afar dýrt og ekki á allra færi.
Á Íslandi mun vanta vinnuafl
Greiningardeildin rifjar upp fyrri greiningu sína um þörf á erlendu vinnuafli á Íslandi á komandi árum ef hagvaxtarspár rætast og ekki hægir verulega á straumi ferðamanna til landsins. Kjarninn fjallaði um málið í ágúst síðastliðnum.
„Að óbreyttu er því líklegra að fremur verði skortur á vinnuafli en störfum á Íslandi í nánustu framtíð. Aftur á móti gæti það tekið tíma og stuðning að koma fólki á vinnumarkað, ekki síst til að hæfileikar og menntun hvers og eins nýtist. Einnig er ólíklegt að flóttamenn myndu hafa nákvæmlega þá þekkingu og reynslu sem íslenskt atvinnulíf mun krefjast á næstu árum. Fjölgun starfa á næstu árum mun líklega að miklu leyti verða í ýmsum störfum tengdum ferðaþjónustu, sem eru fjölbreytt en krefjast ekki alltaf sérþekkingar eða reynslu. Þá er einnig kostur að fólkið sem hingað kæmi yrði líklega ungt, á meðan íslenska þjóðin er að eldast, sem að óbreyttu mun reyna mjög á lífeyriskerfið á næstu áratugum eins og við höfum bent á. Yngra vinnuafl myndi vafalaust hjálpa til við að leysa þann vanda.“
Sérfræðingar greiningardeildar Arion banka segja að hægt sé að fara í óendanlegar vangaveltur um þýðingu þess fyrir efnahagslífið ef hingað komi flóttamenn í þúsundatali. Slíkar vangaveltur séu aftur á móti þýðingarlitlar ef ekki er stuðst við rannsóknir sem liggja fyrir. Bent er á skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, útgefin fyrr í þessum mánuði, þar sem fram kemur að innflytjendur hafi almennt jákvæð áhrif á efnahagslíf í þeim löndum sem þeir flytjast til. „Innflytjendur greiða almennt skatta og opinber gjöld umfram það sem þeir fá frá hinu opinbera (þetta styðja fleiri rannsóknir) auk þess að koma með ýmsa færni og þekkingu inn í landið. Einnig hafa flóttamenn jákvæð áhrif á heimalönd sín, m.a. með því að senda pening heim og öðlast færni í nýju landi sem ekki er í boði í heimalandinu. Þá sýnir nýleg rannsókn frá Ástralíu að flóttamenn þar í landi hafi jákvæð efnahagsleg áhrif, auk þess sem farið er yfir ýmsar aðrar rannsóknir þar sem niðurstaðan er að flóttamenn séu ekki byrði til lengri tíma, ólíkt því sem oft er haldið fram,“ segir í markaðspunktum greiningardeildarinnar í dag.
Í lok greinarinnar er vitnað í nýlegan leiðara tímaritsins The Economist, þar sem fjallað var um málefni flóttamanna. Þar sagði, í þýðingu greiningardeildar Arion banka: „Fólk sem ferðast yfir eyðimerkur og úthöf til að komast til Evrópu er ólíklegt til að vera slugsarar þegar það kemur. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að innflytjendur um allan heims séu líklegri til að stofna fyrirtæki heldur en heimamenn og ólíklegri til að fremja alvarlega glæpi, auk þess að vera nettó greiðendur í ríkiskassann. Óttinn um að þeir steli störfum og lækki laun á sér einnig litla stoð. Vegna þess að innflytjendur koma með öðruvísi færni, hugmyndir og tengsl, reynast þeir jafnan hækka laun heimamanna, þó laun lítið menntaðara heimamanna lækki lítillega.“