Mikill munur er á stuðningi Íslendinga við komu innflytjenda til landsins eftir því hvaðan innflytjendurnir koma. Mestur stuðningur er við komu innflytjenda frá Norður- og Vestur-Evrópu en minnstur stuðningur við komu fólks frá Mið-Austurlöndum. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu.
72 prósent svarenda sögðust vera hlynntir því að innflytjendur frá Vestur- og Norður-Evrópu settust að á Íslandi. Aðeins fimm prósent voru mótfallin því en 24 prósent svöruðu "í meðallagi".
66 prósent svarenda sögðust hlynntir því að fá innflytjendur frá Norður-Ameríku og 59 prósent frá Eyjaálfu. 58 prósent sögðust hlynnt innflytjendum frá Suður-Evrópu og 52 prósent frá Austur-Evrópu. 51 prósent aðspurðra segjast hlynnt komu innflytjenda frá Mið- og Suður-Ameríku.
Andstaða við komu innflytjenda frá öllum þessum svæðum til Íslands mældist innan við 20 prósent.
Innan við helmingur, eða 48 prósent, sagðist hlynntur því að innflytjendur frá Asíu utan Mið-Austurlanda komi hingað til lands, en jafnframt eru 22 prósent mótfallin því að innflytjendur þaðan setjist hér að. 45 prósent eru eru hlynnt innflytjendum frá Afríku en 26 prósent mótfallin.
Minnstur stuðningur mælist við að innflytjendur frá Mið-Austurlöndum setjist að á Íslandi, eða 43 prósent. Jafnframt er mest andstaða við það, eða 34 prósent.
Mikill munur eftir aldri, búsetu og menntun
Í öllum tilvikum er ungt fólk undir 35 ára aldri hlynntara því að innflytjendur setjist að hér á landi. Þá eru íbúar Reykjavíkur hlynntari innflytjendum en íbúar á landsbyggðinni auk þess sem þeim sem eru hlynntir innflytjendum fjölgar með meiri menntun.
Minnsti stuðningurinn við komu innflytjenda var alltaf meðal kjósenda Framsóknarflokksins. Yfirleitt voru kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna hlynntastir komu innflytjenda til landsins, auk stuðningsmanna Pírata í mörgum tilvikum. Oft var einnig marktækur munur á svörum kvenna og karla, og þá voru konur hlynntari því að innflytjendur settust hér að en karlar.
Könnun Maskínu fór fram dagana 4. til 15. september síðastliðinn. Hún var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er byggð á slembiúrtaki úr Þjóðskrá og nær til fólks af báðum kynjum á aldrinum 18 til 75 ára. Svarendur voru 747 og eru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við hvernig þeir þættir skiptast í þjóðskrá.
Könnuðu líka stuðning við flóttamenn
Maskína kannaði í sömu könnun viðhorf til móttöku flóttamanna hér á landi. 57 prósent aðspurðra voru hlynntir því að tekið yrði á móti flóttamönnum frá Sýrlandi á næstu mánuðum en 22 prósent sögðust því andvíg.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru konur mun hlynntari því en karlar að taka á móti flóttamönnum frá Sýrlandi, yngri svarendur eru mun hlynntari því en þeir sem eldri eru, Reykvíkingar eru mun hlynntari því en aðrir, þeir sem hafa lokið háskólaprófi eru hlynntari því en þeir sem hafa styttri skólagöngu að baki og þeir sem hafa litlar eða engar áhyggjur af fjölda innflytjenda á Íslandi eru hlynntari móttöku flóttafólks en þeir sem hafa einhverjar áhyggjur.