Miðað við farþegaspá Icelandair, aukin umsvif WOW Air og umsvif annarra flugfélaga þá má búast við að ferðamenn verði um 1,5 milljón talsins á Íslandi árið 2016. Frá þessu greinir frétta- og ferðasíðan Túristi.is í dag. Í umfjöllun túrista er rýnt í umsvif flugfélaga og áætlanir þeirra fyrir næsta ár heimfærðar á heildarfjölda ferðamanna.
Í síðustu viku tilkynntu forsvarsmenn Icelandair að þeir áformi að farþegum félagsins fjölgi um 15 prósent á næsta ári, sem er álíka vöxtur og árið á undan. Icelandair stendur undir nærri tveimur af hverjum þremur ferðum til og frá Keflavíkurflugvelli og hefur erlendum ferðamönnum hérlendis fjölgað hlutfallslega nokkru meira en aukningin hefur verið hjá Icelandair, segir í umfjöllun Túrista. „Á þessu ári fjölgar farþegum Icelandair um 17 prósent en eins og áður segir lítur út fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um 27 prósent í ár. Farþegaspá Icelandair er því góð vísbending um hversu mikið erlendum ferðamönnum muni fjölga og ef tengslin milli fjölda farþega hjá Icelandair og fjölda ferðamanna haldast nokkuð óbreytt má búast við að ferðamenn hér landi verði um 1,5 milljón á næsta ári. Sjö árum fyrr en sérfræðingar Boston Consulting Group spáðu fyrir um í hittifyrra. Fyrr í ár spáði Landsbankinn því að þessu marki yrði náð árið 2017.“
Miðað við fjölda túrista það sem af er ári þá má gera ráð fyrir að þeir verði um 1,3 milljón talsins í ár, samanborið við tæplega milljón í fyrra.
Samkvæmt útreikningum Túrista, og að því gefnu að skipting milli farþegahópa haldist svipuð í ár og á því næsta, þá munu Icelandair flytja um 630 þúsund erlenda ferðamenn til Íslands á næsta ári, eða 42 prósent þeirra ferðamanna sem áætla má að leggi leið sína þá. WOW Air, annað umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli, gerir auk þess aráð fyrir að stækka flotann um helming. Túristi áætlar að félagið muni flytja að lágmarki um 200 þúsund erlenda ferðamenn til Íslands á næsta ári.
„Ef áform íslensku félaganna tveggja ganga eftir þá munu þau fjölga erlendum ferðamönnum hér á næsta ári um a.m.k. hundrað og þrjátíu þúsund. Öll þau erlendu flugfélög sem hingað fljúga þurfa þá samanlagt að flytja 110.000 fleiri erlenda ferðamenn hingað til lands á næsta ári svo heildarferðamannafjöldinn verði 1,5 milljónir og ef gert er ráð fyrir að fjöldi þeirra sem koma með ferjum haldist óbreyttur,“ segir í ítarlegri umfjöllun Túrista.
Umfjöllun Túrista í heild má lesa hér.