Einu sinni var ég í neyslu. Hver dagur snérist um að redda næsta skammti. Í því skyni þrælaði ég jafnvel frá átta á morgnana flesta daga vikunnar, vanrækti stundum börnin mín eða dró þau í neysluna með mér. Svo langt var ég leidd. Öll fjölskyldan leið því eins og gefur að skilja fyrir ástandið, þannig er ægimáttur neyslunnar.
Hluti af mér vissi auðvitað alltaf að eitthvað var að en afneitunin var sterk. Allir hinir krakkarnir eru að þessu, sagði ég sjálfri mér. Þetta er bara hluti af partíinu. Skilaboðin höfðu dunið á mér skýr, allt frá barnæsku: Ef þú spilar ekki með ertu fáránleg og enginn mun elska þig. Vertu með eða vertu asnaleg úti. Ekki halda að þú sjálf sért á einhvern hátt nóg, það er öllum sama hver þú ert. Hvað áttu?
Þetta byrjaði smátt og sakleysislega. Ein og ein flík úr Gallabuxnabúðinni, nýjustu græjurnar, þrennir Buffalóskór á vetri og BodyShop snyrtivörur í flest mál. Á framhaldsskólaárunum komu hörð efni á borð við farsíma og bíla til sögunnar og eftir það var ekki aftur snúið. Áður en ég vissi af var ég komin á kaf í stöff á borð við flatskjái og Eames stóla, Redken hárvörur, MAC snyrtivörur og fatakaup í hverjum mánuði. Ég gat hent í þrjár fjórar flíkur í netverslunum á kvöldi án þess að blikna. Þegar fataskápurinn og geymslan gátu ekki meir tóku vinkonurnar eða Bland við og ég taldi mér trú um að ég væri mannvinur mikill, með fulla stjórn á aðstæðum.
Botninum náði ég síðan fyrir nokkrum árum, í dýpsta nóvemberskammdeginu. Erfitt er að segja til um hví ég sökk svo djúpt, margt kom þar við sögu. Trendnet var þarna nýtt af nálinni og þó dagurinn sé umlukinn martraðakenndri þoku rámar mig í að hafa vafrað þar stjórnlaust um í einhvern tíma. Á þessum stað í neyslunni er öll sjálfsvirðing farin.
Að atburðarrásinni sjálfri eru engin vitni svo varlega skal fullyrt um smáatriði en Epal kom þó við sögu, það sáu menn seinna á kreditkortafærslum. Það eina sem ég man er að standa stjörf heima í stofu með gallbragð í munni, einstæði kennarinn með börnin þrjú, bílinn og húsnæðislánið, starandi brostnum augum á púðana tvo í sófanum mínum sem rétt í þessu höfðu kostað mig þrjátíu þúsund krónur. Þeir voru ekki einu sinni þægilegir og annar var bleikur. Ég reyndi í örvæntingu að leita réttlætingar, upplifa alsæluna í pastellituðum hnöppunum en fann bara botnlaust sálarmyrkur. Mál var að linnti.
Nú hef ég verið edrú í nokkurn tíma. Ég tek þó bara einn dag í einu, meðvituð um að þetta er ævilöng barátta og þá fyrst ertu í vanda ef þú heldur þig hólpinn. Freistingarnar leynast ekkert í hverju horni, þær vaða öskrandi um á strætum og torgum, í tölvum og á kaffistofum og æpa á þig allskyns dáleiðandi blótsyrði eins og hönnun og gæði, frískleiki og eilíf æska. Svei því. Nú frussa ég á hverskonar útlitsofsóknir og skeini börnunum með Ikea bæklingnum. Ég geng í einu gallabuxunum mínum alla daga með ólitað hár í úlpu af dóttur minni og öllum, hverjum einasta manni í öllum heiminum, er alveg nákvæmlega sama.
Því allt er þetta bara kjaftæði sem engu skiptir. Árum, orku og ótal aurum er eytt í að uppfylla þarfir sem ekki eru raunverulegar, kaupa rándýrar lausnir á vandamálum sem aldrei voru til staðar. Snyrtivöruiðnaðurinn fer mikinn á því sviði, með okkur konur sem sérstök skotmörk. Mér til sárrar gremju er karlmönnum síður matreidd öll sú vitleysa, í það minnsta eru þeir rukkaðir helmingi minna fyrir hana en við. Ég kaupi mér því alfarið karlakrem núna og hyggst eldast eins og karlmaður, enda umtalsvert eftirsóknarverðara að því er mér skilst.
Við höfum óskapa áhyggjur af allskyns neyslu, fordæmum hana og glæpavæðum á meðan eina neyslan sem í raun og sanni ógnar lífi á jörðinni er stjórnlaus neysla okkar á hverskyns drasli.
Um það bil helmingi af framleiðslu heimsins er hent en sú sóun jarðefna er bráðnauðsynleg svo að hið heilaga hjól atvinnulífsins snúist og snúist sjálfu sér til dýrðar. Við erum nefnilega hagvaxtartrúar. Trúin sú er tiltölulega ný sögulega séð. Um er að ræða bókstafstrú sem styðst við tilbúna fræðigrein er tekur hvorki tillit til manna, skepna né umhverfis. Kraftaverkasögur þessarar ofsatrúar kallast auglýsingar og þeim er ætlað að boða fagnaðarerindið til allra þjóða, allt til enda veraldar. Dílerar kapítalismans eira engu. Að þeim dólgum mætti löggjafinn einbeita sér.
Nú nálgast senn hátíð ljóss og friðar, offars og óhófs. Mín ósk okkur öllum til handa er að við hugsum um börnin. Leyfum þeim að njóta hátíðanna í friði fyrir ofsafengnum ofneysluuppköstum og skjálfandi samviskuþynnku. Verum allsgáð um jólin.