Mjólkursamsalan hefur fengið úrskurðað lögbann á sölu sænska mjólkurrisans Arla á skyri í Finnlandi. Arla verður að fjarlægja allt skyr úr verslunum þar í landi áður en vika er liðin, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Arla hefur markaðssett eigin framleiðslu á skyri víða í Evrópu undanfarna mánuði. Í þeirri herferð hefur verið lögð mikil áhersla á að sýna fram á íslenskan uppruna skyrsins og auglýsingarnar hafa innihaldið mikið magn myndefnis frá Íslandi.
Skyr er skrásett vörumerki í Finnlandi og Noregi í eigu MS og samstarfsaðila hennar. Því var farið með málið fyrir dómstóla, þar sem niðurstaðan var að Arla er bannað að flytja inn, markaðssetja og selja vörur merktar sem skyr í Finnlandi, en skyrið er framleitt í Þýskalandi. Auk þess var lögð á 500 þúsund evra sekt á félagið, jafnvirði um 70 milljóna króna, að því er Morgunblaðið greinir frá.
Skyr er einnig skráð vörumerki Mjólkursamsölunnar í Noregi en ekki fleiri löndum Evrópu. Skyr frá Arla verður því áfram fáanlegt í Bretlandi, Hollandi, Belgíu og Danmörku, án þess að MS geti óskað eftir lögbanni.