Hörður Þórhallsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, segist ekki vera landsfundarfulltrúi á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins né hafi hann sótt um að verða slíkur. Í frétt sem Stundin birti síðastliðinn miðvikudag var sagt að Hörður væri skráður til þátttöku á landsfundi flokksins, sem fram fer síðar í þessum mánuði. Til að öðlast seturétt á fundinum þarf viðkomandi að vera skipaður landsfundafulltrúi af aðildarfélögum eða fulltrúarráði Sjálfstæðisflokksins.
Hörður var ráðinn framkvæmdastjóri nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála í síðustu viku og mun hefja störf um næstu mánaðarmót. Hann var formlega ráðinn til starfsins af atvinnuvegaráðuneytinu. Þar er hann með verktakasamning og fær 1.950 þúsund krónur í heildarlaun á mánuði. Stjórn Stjórnstöðvarinnar tók ákvörðun um ráðningu hans. Staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst.
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í síðustu viku. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar verður að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020.