Vilji er til þess innan allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis að veita albanskri fjölskyldu, sem var flutt úr landi fyrir helgi, ríkisborgararétt hér á landi. Þetta kom fram í fréttum RÚV í hádeginu. RÚV segir að búist sé við því að umsókn frá fjölskyldunni til nefndarinnar berist í dag.
Þriggja ára drengur í fjölskyldunni er haldinn slímseigjusjúkdómi, sem getur dregið fólk til dauða. Lögmaður fjölskyldunnar hefur sagt að það hefði átt að veita fjölskyldunni dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Fjölskyldan fór hins vegar úr landi á fimmtudag eftir að hafa dregið til baka kæru hjá kærunefnd útlendingamála.
Alþingi veitir árlega hópi fólks ríkisborgararétt vegna sérstakra aðstæðna, og það er venjulega gert fyrir jólin. Umsóknarfrestur er löngu runninn út en sagt er að fjölskyldunni verði vel tekið af nefndinni og vilji sé til þess að taka umsóknina til skoðunar. Það þurfi þó að fá gögn frá Útlendingastofnun og skoða umsóknina með sama hætti og aðrar umsóknir. RÚV segir að með þessu verði hægt að veita fjölskyldunni ríkisborgararétt án þess að sett sé fordæmi í hæliskerfinu, sem ekki sé talið stætt á að setja.
Önnur fjölskylda með ungan langveikan dreng var einnig send úr landi fyrir helgi. RÚV segir að ef sú fjölskylda sækti um ríkisborgararétt með þessum hætti yrði umsókn hennar líka vel tekið af nefndinni.
Var líka rætt á Alþingi
Ólöf Nordal innanríkisráðherra sagði frá því í þinginu fyrr í dag að hún skrifaði Útlendingastofnun og Rauða krossinum bréf á föstudaginn þar sem hún óskaði eftir því að farið yrði yfir það hvernig að brottflutningi hælisleitenda er staðið, sérstaklega þegar kemur að börnum. Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnartíma, Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Helgi Hjörvar spurðu hann öll um málefni útlendinga í fyrirspurnartímanum í dag.
Ólöf greindi einnig frá því að hún hefði óskað eftir því að fá að flytja Alþingi munnlega skýrslu í þessari viku um útlendingamál, enda væri mikilvægt að þingheimur væri upplýstur um þau. Hún sagði það vera mjög miður að mál albönsku fjölskyldnanna tveggja, sem voru með veik börn og voru sendar úr landi í síðustu viku, hafi ekki ratað fyrir kærunefnd útlendingamála.