Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, telur óeðlilegt ef næsti forseti landsins verði ekki kristinnar trúar og skráður utan þjóðkirkjunnar. Í samtali við Kjarnann segir hún byggja skoðun sína á ákvæðum í stjórnarskrá um að ríkisvaldið skuli styðja og vernda þjóðkirkjuna og litið sé á forsetann sem verndara hennar.
„Það er óeðlilegt að hann verði utan þjóðkirkjunnar á meðan við búum við þetta sama skipulag," segir hún.
Agnes segist þó munu virða vilja þjóðarinnar ef það kemur til þess að breyta þessum ákvæðum í stjórnarskrá.
„Er það ekki þannig að meirihlutinn ræður?," segir hún. „Ef það er vilji þjóðarinnar að breyta ákvæðinu, þá virði ég það. Þó að ég mundi vilja halda þessu óbreyttu."
En hvaða áhrif hefði það á samstarf embættanna tveggja, forsetans og biskups, ef sá fyrrnefndi stæði utan þjóðkirkjunnar?
„Ég veit ekki hvort það mundi beinlínis hafa áhrif á kirkjuna, en væntanlega margar hefðir sem hafa skapast í kring um samskiptin," segir Agnes, og nefnir vígslu forseta sem dæmi, sem fer fram við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni.
„Ég mundi halda að forseti sem væri ekki í þjóðkirkjunni hefði lítinn áhuga á slíkri athöfn," segir hún og bætir við að eðlilega vonast hún eftir því að næsti forseti verði kristinnar trúar, eins og verið hefur.
Agnes var sömu skoðunar í aðdraganda síðustu forsetakosninga árið 2012.