Fylgi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks minnkar töluvert milli síðustu kannanna MMR. Fylgi Framsóknar mælist 11,5 prósent, en var 12,9 prósent áður. Fylgi Sjálfstæðisflokks féll úr 22,9 prósentum niður í 20,6 prósent og hefur fylgi flokksins aldrei mælst lægra. Fylgi Sjálfstæðisflokks mældist 24,9 prósent hjá MMR í janúar 2009, þremur mánuðum eftir efnahagshrunið, og 23,7 prósent í kosningunum í apríl sama ár. Sjálfstæðisflokkurinn mældist líka með 20,6 prósent í könnun Gallup 30. nóvember 2008.
Könnun MMR var gerð 18. desember síðastliðinn, en næsta á undan var gerð 11 dögum áður, 7. desember. Fylgið hefur því breyst töluvert á skömmum tíma.
Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar milli kannanna MMR og lækkar úr 35,6 prósentum í 31,2 prósent.
Fylgi Pírata heldur áfram að vera langmest meðal flokkanna sex sem eru mældir, en þeir mældust með 34,9 prósenta fylgi og minnkar fylgið úr 35,5 prósentum milli kannanna, um 0,6 prósent.
Samfylking og Vinstri græn mældust bæði með 9,4 prósenta fylgi í könnun MMR frá 7. desember er samkvæmt nýjustu könnun hækkar fylgi Samfylkingar um 3,5 prósentustig og mælist nú 12,9 prósent, sem er sama fylgi og flokkurinn fékk í síðustu kosningum.
Vinstri græn bæta einnig við sig tveimur prósentustigum og mælast nú með 11,4 prósenta fylgi.
Fylgi Bjartar framtíðar breytist lítið milli kannanna, en flokkurinn bætir við sig fylgi úr 4,6 prósentum í 5,3 prósent.