Google ber ekki að fjarlægja leitarniðurstöður um íslenskan einstakling, sem hlaut skilorðsbundinn dóm fyrir fjármunabrot í starfi sínu, þrátt fyrir að viðkomandi hafi óskað eftir því. Þetta er úrskurður Persónuverndar, en manneskjan kvartaði þangað yfir því að Google neitaði að fjarlægja niðurstöður um hana í leitarvél sinni, en niðurstöðurnar vísa á fréttir um dóm í málinu.
Frétt birtist um viðkomandi í fjölmiðli eftir að dómur féll. Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að „þá umfjöllun upplifi kvartandi sem meiðandi“ og umfjöllunin beri með sér að henni sé ætlað að rýra trúverðugleika kvartanda í núverandi starfi. Með vísan til niðurstöðu Evrópudómstólsins, sem yfirleitt er talað um sem réttinn til að gleymast (the right to be forgotten), hafi því verið óskað eftir því við Google að niðurstöður leitarinnar yrðu afmáðar.
Google hafnaði beiðninni á þeirri forsendu að þarna væri um almannahagsmuni að ræða. Lögmætir hagsmunir væru af því að fólk hefði aðgengi að þessum upplýsingum.
Persónuvernd kemst að þeirri niðurstöðu að fréttaumfjöllun megi vera aðgengileg í niðurstöðu leitar á vefleitarvél. Það verði að vega og meta réttinn til tjáningarfrelsis andspænis réttinum til friðhelgi einkalífs, og persónuverndarlaga. Persónuvernd telji ekki að óheimilt sé samkvæmt persónuverndarlögum að gera þessa niðurstöðu aðgengilega á netinu.