Píratar myndu fá 28 þingmenn kjörna ef kosið yrði í dag, samkvæmt niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis þar sem fylgi flokksins mældist tæplega 42 prósent. Þingmönnum flokksins myndi því fjölga um 25 og hann myndi taka fylgi af öllum flokkum. Píratar yrðu langstærsti þingflokkur landsins.
Sjálfstæðisflokkurinn, sem í dag hefur 19 þingmenn, myndi fá 16 slíka ef kosið yrði í dag. Það eru jafnmargir þingmenn og flokkurinn fékk eftir kosningarnar 2009, þegar hann hlaut sína verstu kosningaútkomu í sögunni. Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist nú 23,2 prósent. Á meðal þeirra þingmanna sem myndu missa sæti sitt er Birgir Ármannsson.
Framsóknarflokkurinn myndi tapa miklu fylgi. Hann fékk 24,4 prósent fylgi í kosningunum 2013 og 19 þingmenn. Í dag myndi hann fá um tíu prósenta fylgi og sjö þingmenn. Á meðal þeirra þnigmanna sem myndu ekki ná inn á þing eru Frosti Sigurjónsson, umhverfisráðherrann Sigrún Magnúsdóttir og Karl Garðarsson. Framsókn myndi, samkvæmt niðurstöðu könnunarinnar, einungis ná inn einum þingmanni í Reykjavíkurkjördæmunum. Sá yrði Vigdís Hauksdóttir samkvæmt lista flokksins eins og hann var boðinn fram árið 2013.
Samfylkingin og Vinstri græn myndu bæði tapa þingmönnum ef kosið yrði í dag og fá sex slíka hvor, en báðir flokkarnir eru með um tíu prósent fylgi. Í dag er Samfylkingin með níu en Vinstri græn með sjö. Eftir kosningarnar 2009 mynduðu þessir tveir flokkar meirihlutastjórn saman og voru þá með samanlagt 34 þingmenn. Á meðal þeirra þingmanna Samfylkingar sem myndu ekki ná kjöri, miðað við lista flokksins í síðustu kosningum, eru Helgi Hjörvar og Valgerður Bjarnadóttir.
Björt framtíð, sem í dag hefur sex þingmenn, myndi ekki ná manni inn á þing ef kosið yrði í dag. fylgi flokksins mælist 1,6 prósent.
Hringt var í 1.158 manns í könnuninni þar til náðist í 801 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef ekki fékkst svar var spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? Það er gert í samræmi við aðferðafræði sem þróuð var á Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Alls tók 56,1 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar.