Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tveggja manna sem kærðir voru fyrir nauðgun í fjölbýlishúsi í Hlíðunum í október síðastliðnum, hefur ítrekað kröfur sínar um að Fréttablaðið greiði umbjóðendum hans samtals 20 milljónir króna í miskabætur og biðjist afsökunar vegna umfjöllunar blaðsins um málið. RÚV greindi frá því að héraðsaksóknari hefði fellt niður mál mannanna tveggja.
Önnur kona kærði annan mannanna einnig fyrir nauðgun í sömu íbúð. Það mál er enn til rannsóknar.
Í frétt Fréttablaðsins var sagt frá rannsókn lögreglu á tveimur aðskildum kynferðisbrotamálum vegna meintra árása sem átt hefðu sér stað í fjölbýlishúsi í Hlíðahverfi í Reykjavík í október. Tvær konur kærðu tvo karlmenn fyrir kynferðisbrot í málinu og í frétt Fréttablaðsins sagði að „Samkvæmt heimildum blaðsins voru árásirnar hrottalegar og íbúðin búin tækjum til ofbeldisiðkunar“. Í fyrirsögn forsíðufréttar blaðsins mánudaginn 9. nóvember stóð „Íbúð í Hlíðunum var útbúin til nauðgana“ og fram kom í fréttinni að mönnunum hafði svo verið sleppt að lokinni skýrslutöku.
Fréttin vakti mikla athygli og varð meðal annars tilefni fjölmenna mótmæla við lögreglustöðina seinna sama dag.
Vilhjálmur, sem er eins og áður segir lögmaður mannanna, vísaði fréttinni á bug. Hann sendi í nóvember 2015 kröfubréf til Kristínar Þorsteinsdóttur, útgefanda og aðalritstjóra 365, sem Fréttablaðið tilheyrir, þar sem hann fór fram á leiðréttingu á fréttinni, afsökunarbeiðni og miskabætur upp á tíu milljónir króna fyrir hvorn mannanna. Þeirri kröfu var hafnað.
Tveimur dögum síðar skrifaði Kristín leiðara þar sem sagði að ekkert í fréttum Fréttablaðsins af málinu hafi gefið tilefni til þess að blaðið biðjist afsökunar á fréttaflutningnum. Fréttin hafi bara verið „góð blaðamennska.“ Fréttablaðið hafi forðast að lýsa atvikum sem til umfjöllunar voru með of nákvæmum hætti. Berorðustu lýsingarnar hafi komið fram hjá RÚV.
Vilhjálmur segir að nú sé komin upp ný staða í málinu. „Fréttablaðið og 365 hlýtur að horfast í augu við þann veruleika að þau hafa farið offari í umfjöllum um umbjóðendur mína, sakfellt þá á síðum Fréttablaðsins og kveikt í þeirri galdrabrennu sem síðar fór fram hjá almenningi á samfélagsmiðlum. Ég hef ítrekað fyrri kröfur mínar við lögmann 365 og upplýst að umbjóðendur mínir séu reiðubúnir að hlusta á viðbrögð þeirra. Ég vona að 365 og Fréttablaðið sjái að sér og komi til móts við kröfur umbjóðenda mína með einhverjum hætti. Annars verður þeim stefnt. Það verður því forvitnilegt að sjá forsíðu Fréttablaðsins á morgun og hvort þau biðjist afsökunar. Það væri æskilegt.“ Hann fullyrðir að ekkert í rannsókn lögreglu hafi stutt við þá fullyrðingu Fréttablaðsins að íbúðin hafi verið útbúin til nauðgana.
Kristín Þorsteinsdóttir vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað. Hún sagðist mundu senda út yfirlýsingu til fjölmiðla síðar í dag.
Uppfært klukkan 18:14:
Kristín Þorsteinsdóttir hefur hætt við að senda frá sér yfirlýsingu og ætlar ekkert að tjá sig um málið.