Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur beðið Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra afsökunar á því að hafa kallað hann lítinn tveggja ára offitusjúkling. Það gerði Kári í viðtali við blaðið Reykjavík Grapevine sem kom út í gær. Þetta kom fram í viðtali við Kára í Vikulokunum á Rás 1. „Þessi skítur á minni ábyrgð. Þessa lotu vann forsætisráðherra 10-0."
Kári sagðist svo sannarlega skulda Sigmundi Davíð afsökunarbeiðni vegna ummælana, sem hefðu ekki komið út í viðtalinu eins og hann ætlaði. Hann hafi verið að segja frá því að einn kollega hans hjá Íslenskri erfðagreiningu hefði sagt við sig að hann og Sigmundur Davíð væru eins og tveir litlir strákar að rífast um leikfang í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað þeirra á milli að undanförnu. Það ætti ekki að draga það mikilvæga málefni sem umræða um aukin framlög til heilbrigðismála eru niður á það stig að gagnrýna líkamlegt atgervi manna. Kári sagði að sér fyndist Sigmundur Davíð skemmtilegur, skýr, dýnamískur og glæsilegur maður.
Kári og Sigmundur Davíð hafa tekist nokkuð harkalega á opinberlega undanfarnar vikur vegna framlaga til heilbrigðiskerfisins. Kári setti í gang undirskriftasöfnun í janúar þar sem farið var fram á að stjórnvöld myndu leggja ellefu prósent af landsframleiðslu í heilbrigðismál. Alls hafa 57 þúsund manns skrifað undir áskorunina.
Kári er þeirrar skoðunar að þetta sé ekki nægjanlegur hópur til að hafa áhrif á ákvörðunartöku Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, og Sigmundar Davíðs um framlag til heilbrigðismála. Hann segir stjórnvöld hafa sent undirskriftasöfnuninni fingurinn og það hefði því miður þurft meira til að hreyfa við þeim. Undirskriftasöfnunin verður opin út næstu viku en verður síðan hætt.