Birting tveggja auglýsinga í nafni ríkisstjórnar Íslands í völdum fjölmiðlum í byrjun ársins kostaði rúmlega 2,5 milljónir króna. Langhæsta upphæðin fór til Fréttablaðsins, 800 þúsund krónur, auk þess sem auglýst var á Vísi.is fyrir 168.000 krónur. Auglýsingar hjá miðlum 365 kostuðu því tæpa milljón króna.
Auglýsingar í Morgunblaðinu kostuðu 459 þúsund krónur og hjá mbl.is ríflega 70 þúsund krónur. Auglýsingar hjá RÚV kostuðu 197.700 krónur og í Fréttatímanum 193.800. Auglýsingar hjá DV og dv.is kostuðu 135 þúsund og 94 þúsund krónur og auglýsingar hjá Pressunni tæplega 33 þúsund. Viðskiptablaðið fékk 139.994 krónur fyrir auglýsingu þar.
Þetta kemur allt fram í svari Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um kostnað við auglýsingar ríkisstjórnarinnar.
Ákvörðun um að birta auglýsingarnar var tekin í forsætisráðuneytinu að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið og eftir kynningu í ríkisstjórninni. Kostnaðurinn við auglýsingarnar var greiddur af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar. Ekki er áætlað að auglýsa frekar í nafni ríkisstjórnarinnar.
Auglýsingarnar voru harðlega gagnrýndar af stjórnarandstöðuflokkunum. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði við Vísi.is um hreinar og klárar áróðursauglýsingar að ræða. „Okkur finnst þetta mjög undarleg ráðstöfun á almannafé, enda um hreinar áróðursauglýsingar að ræða en ekki neinar upplýsingar til almennings um rétt sem fólk er að fá eða slíkt. Þá vekur athygli að fyrirbærið „ríkisstjórn Íslands“ stendur fyrir auglýsingunum, en það fyrirbæri er ekki til sem stjórnarfarsleg eining og hefur ekki kennitölu."
Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, skrifaði pistil á bloggsíðu sína snemma í janúar og sagði að með birtingu auglýsinganna hefði ríkisstjórnin hægriflokkanna gripið til þess ráðs að auglýsa meint ágæti sitt undir nafni ríkisstjórnar Íslands. „Það hlýtur að teljast vera nokkuð sérstök aðgerð og til vitnis um lítið sjálfstraust að þurfa að kaupa heilsíður í fjölmiðlum í þessum tilgangi og leita allt aftur í Hrunárin eftir hagstæðum samanburði.“