Það er „formlega rétt“ að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra braut siðareglur ráðherra, segir Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Þetta kom fram í þættinum Vikulokunum á Rás 1. Þegar hann var svo spurður um það aftur hvort Sigmundur Davíð hefði brotið siðareglurnar með því að upplýsa ekki um félag eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, á Tortóla sagðist hann ekki ætla að leggja mat á það. Það sem skipti máli væri hvort hann hefði látið málið hafa áhrif á störf sín, og það hefði hann ekki gert.
Frosti segir að þingmenn Framsóknarflokksins hafi ekki vitað af félagi Önnu Sigurlaugar á Tortóla áður en upplýst var um málilð. Áður hefur komið fram að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins vissi ekki um félagið, en Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur engu að síður sagt að félagið hafi alltaf verið öllum ljóst og aldrei hafi verið reynt að fela það.
Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einnig gestur í Vikulokunum og hann segir það mjög óþægilegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að standa andspænis málinu. Sigmundur hafi setið beggja vegna borðsins í tengslum við vinnu við uppgjör föllnu bankanna. „Það er eins og menn skilji ekki vanhæfi og hagsmunatengsl,“ sagði hann. Í ýmsum málum sé hangið á formsatriðum eins og að lög hafi ekki verið brotin. Alltaf eigi að upplýsa um hagsmunatengsl. „Auðvitað rýrir þetta traust mitt á hinum flokknum í þessu samstarfi.“
Óttarr Proppé, þingmaður og formaður Bjartrar framtíðar, og Svandís Svavarsdóttir, þingmaður VG, voru einnig gestir í Vikulokunum og gagnrýndu málflutning Frosta og Sigmund Davíð einnig. Óttarr talaði um það að það litla traust sem stjórnmálamenn njóti á Íslandi byggist á hreinskilni og svona hlutir eigi að vera uppi á yfirborðinu. Svandís sagði ljóst að Sigmundur hefði átt að greina frá málinu fyrr, hann hafi viðurkennt að hafa hugsað um að gera það árið 2013, en hún sagðist spyrja sig að því hvort hann hafi ekki gert það vegna þess að það hefði haft áhrif á kjörfylgi hans.