Forsætisráðuneytið neitar að svara því hvort Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, hafi skilað sérstöku CFC framtali vegna félagsins Wintris, sem hún á á Tortóla. Ellefu dagar eru liðnir frá því að Kjarninn sendi fyrst fyrirspurn um málið til aðstoðarmanns forsætisráðherra, Jóhannesar Þórs Skúlasonar. Ítrekuðum fyrirspurnum í tölvupósti, símtölum og smáskilaboðum hefur ekki verið svarað.
CFC stendur fyrir Controlled Foreign Corporation, erlend fyrirtæki, félög eða sjóði í lágskattaríkjum, en lög um slík félög voru sett á Íslandi árið 2009 og löggjöfin innleidd í kjölfarið. Lögin kveða meðal annars á um að greiða skuli tekjuskatt hér á landi af hagnaði félags sem íslenskur skattaðili á en er í lágskattaríki. Íslendingar sem eiga félög á lágskattasvæðum eiga að skila sérstöku framtali með skattframtalinu sínu vegna þessa, skýrslu ásamt greinargerð þar sem meðal annars eru sundurliðaðar tekjur, skattalegar leiðréttingar, arðsúthlutun og útreikningur á hlutdeild í hagnaði eða tapi á grundvelli ársreikninga, sem eiga að fylgja. Ef það er ekki gert brýtur það í bága við lög um tekjuskatt.
Anna Sigurlaug greindi frá því þegar hún sagði frá tilvist félagsins Wintris að hún hefði gert það að skilyrði við stofnun að allir skattar væru greiddir strax á Íslandi. Gerð hafi verið grein fyrir öllum tekjum og félagið hafi verið talið fram á skattframtölum hennar og Sigmundar Davíðs alla tíð. Þau birtu síðar staðfestingu frá KPMG þar sem sagt er að félagið hafi verið fært til eignar alla tíð, sem og verðbréfaeign og kröfur, auk þess sem tekjur hafi verið færðar á skattframtöl eftir því sem þær féllu til.
Í kjölfar þess sendi Kjarninn fyrirspurn til aðstoðarmanns forsætisráðherra. Fyrirspurnin snýr að því hvernig gerð hafi verið grein fyrir félaginu, og hvort CFC framtali hafi verið skilað með framtali hennar. Þessu hefur ekki verið svarað, eins og fyrr segir.