Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir ekki augljóst að ríkisstjórnin hafi umboð til þess að halda áfram. Hann segist taka stöðuna sem upp er komin mjög alvarlega. Bjarni segist í samtali við Kjarnann ætla að funda með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í fyrramálið þegar hann kemur til landsins. Bjarni er nú staddur erlendis.
Segir ríkisstjórnina í miklum mótbyr
Aðspurður segir Bjarni Sigmund ekkert samráð hafa haft við sig um þá ákvörðun sína að segja ekki af sér embætti forsætisráðherra, eins og hann tilkynnti í beinni útsendingu í hádeginu á Stöð 2 í dag.
„Við höfum ekkert verið að ræða þetta neitt sérstaklega og ég var ekki með væntingar um að hann myndi vera í miklum samskiptum við mig um það,” segir Bjarni.
Spurður hvort hann beri traust til Sigmundar Davíðs til að leiða ríkisstjórnina áfram segir Bjarni:
„Það er nú þannig með þessar traust- og vantraustsyfirlýsingar að ég vinn ekki þannig að ég láti rukka mig um slíkt í stjórnarsamstarfi. En við tökum þessari stöðu alvarlega og áttum okkur á því að ríkisstjórnin er í miklum mótbyr. Við ætlum að setjast yfir málin og skoða það hvort við teljum að ríkisstjórnin geti sótt sér þann styrk sem nauðsynlegur er til að halda áfram. Það er ekki augljóst að svo sé.”
Hefur hlustað eftir sjónarmiðum flokksins í dag
En treystir Bkarni sér til að sitja áfram í ríkisstjórn með Framsóknarflokknum?
„Á meðan það samstarf er, þá sinni ég því. En við þurfum að setjast yfir þessa alvarlegu stöðu og velta því fyrir okkur hvort við teljum okkur hafa þann stuðning og samstöðu til að sinna hlutverki okkar,” segir hann. „Það er það sem ég hef verið að ræða við þingflokkinn í dag að hlusta eftir þeirra sjónarmiðum. Fyrsta verkefnið á morgun verður að setjast niður með samtarfsflokknum.”
Bjarni horfði á Kastljósþátt gærkvöldins.
„Ég hef skilning á því að fólk hafi verið slegið yfir þeim meginatriðum sem komu fram í þættinum,” segir hann.
Þingflokksformaður segir stöðuna alvarlega
Guðlaugur Þór Þórðarson, sitjandi þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tekur undir með formanninum í meginatriðum. Staðan sé mjög alvarleg og því sé mikilvægt að setjast niður sem fyrst og ræða framhaldið og staðreyndir málsins
„Dagurinn í dag er að kveldi kominn og var mjög tilfinningaríkur. Mér fannst Sigmundur Davíð sýna á sér nýja og mannlegri hlið heldur en oft áður. Nú setjumst við niður þegar formaðurinn kemur, því eðli málsins samkvæmt þá er það formaður Sjálfstæðisflokksins hefur mest um þessi mál að segja. Og það er mikilvægt að fá hann heim, þó að við höfum verið í góðu sambandi við hann á meðan hann hefur verið erlendis í gegn um síma, þá er það ekki það sama,” segir Guðlaugur. „Síðan þarf hann að taka samtölin við forystu Framsóknarflokksins og meta stöðuna sem upp er komin og taka ákvarðanir í framhaldi af því.”
Nauðsynlegt að horfa á verkefnin framundan
Guðlaugur segir nauðsynlegt að líta til þess að stjórnmál snúist að mestum hluta um traust, og það skipti miklu máli.
„En ég horfi líka á þjóðarhag sem grundvallaratriði. Og ég hef ákveðnar áhyggjur af því að það eru stór verkefni framundan, eins og aflétting hafta, og ríkisfjármálin eru ekki komin í höfn og ýmiss önnur verkefni sem ættu að komast í farveg í bestri sátt. Við erum ánægð með þann árangur sem hefur náðst, en hann er ekki í höfn. Og það væri æskilegt að hvenær sem kosningar verða, að við myndum ekki skemma fyrir þeirri vegferð sem við erum á.”
Vill ekki lýsa yfir trausti
Spurður hvort hann treysti Sigmundi Davíð til þess að leiða ríkisstjórnina áfram segir Guðlaugur:
„Við munum bara fara yfir þau má með formanninum okkar þegar hann kemur heim. Ég ætla bara að vera einlægur í því. Mín samskipti við Sigmund Davíð hafa alltaf verið mjög góð og hann hefur gert marga góða hluti, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu. En þetta snýst ekki eingöngu um það. Og ég er algjörlega meðvitaður um að ég er varkár í yfirlýsingum og það er bara vegna þess að þannig er staðan. Og við viljum ekki taka neinar ákvarðanir fyrr en formaðurinn okkar er kominn heim og búinn að fara yfir málin með okkur.”