Þrjú prósent aðspurðra sögðust bera mest traust til Sigurðar Inga Jóhannessonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, af ráðherrum ríkisstjórnarinnar í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 síðan um miðjan mars. 17 prósent sögðust bera mest traust til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í sömu könnun. Sigurður Ingi er nýtt forsætisráðherraefni Framsóknarflokksins eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ákvað að segja af sér því embætti, en halda þó áfram sem þingmaður og formaður flokksins.
Sigurður Ingi, Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, fá öll þrjú prósent í könnuninni. Tvö prósent sögðust treysta Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, mest og eitt prósent Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra er langvinsælasti ráðherrann, en 40 prósent segjast treysta honum mest. Ólöf Nordal innanríkisráðherra mældist með 21 prósent og Sigmundur Davíð, eins og áður segir, með 17 prósent.
Hringt var í 1.082 þar til náðist í 794 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 8. og 9. mars. Svarhlutfallið var 73,4 prósent.