Þau Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra Framsóknarflokksins, hafa öll birt upplýsingar úr skattframtölum sínum. Eygló skráir sínar upplýsingar í hagsmunaskráningu á vef ráðuneytisins, Árni Páll birti á heimasíðu sinni og Katrín skráði sínar upplýsingar í hagsmunaskráningu á vef Vinstri grænna.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata, segjast í samtali við Kjarnann ætla að birta sínar upplýsingar á næstu dögum.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, birti afrit af skattframtali sínu og eiginkonu sinnar á Facebook-síðu sinni í október í fyrra. Framtölin voru fyrir árin 2012 og 2013 og voru birt vegna frétta Stundarinnar af tengslum Illuga við fyrirtækið Orka Energy.
Sigmundur sagði kröfuna um birtingu sjálfsagða
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í viðtali við Ísland í dag fyrir tíu dögum síðan að það gæti vel verið að það sé tímabært fyrir þau hjónin að opna bókhald sitt upp á gátt: „Í þessu tilviki held ég að það sé orðið að sjálfsagðri kröfu að hún geri grein fyrir þessu,“ sagði hann. Þá ættu líka aðrir að gera slíkt hið sama.
Ekki víst hvort Bjarni birti
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður af Árna Páli á Alþingi í morgun hvort stæði til hjá honum að birta upplýsingar úr sínum skattframtölum. Bjarni svaraði því til að hann ætlaði að meta þörfina á frekari upplýsingagjöf og það yrði bara að koma í ljós hvernig það yrði gert. Vilji þingmenn gera breytingar á reglum um hagsmunaskráningu ættu þær að vera gerðar á þverpólitískum vettvangi á þinginu.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði við RÚV í gær að það væri eðlilegt að þeir ráðherrar sem tengjast aflandsfélögum birti upplýsingar úr skattskýrslum sínum.