Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur fengju jafn mikið fylgi sem forseti Íslands ef valið stæði á milli þeirra tveggja. Þetta er niðurstaðan í nýrri skoðanakönnun Frjálsrar verslunar, sem birt var nú í morgun.
Svarendur voru spurðir hvorn þeir myndu kjósa ef valið stæði á milli Ólafs Ragnars og Guðna, sem þó hefur ekki enn tilkynnt um framboð sitt. Guðni fékk meira fylgi en Ólafur, 44,5% á móti 42,5% sitjandi forseta, en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur. Ef aðeins voru skoðuð svör þeirra sem tóku afstöðu fékk Guðni 51,1% og Ólafur Ragnar 48,9%.
Guðni mælist með meira fylgi á suðvesturhorninu, 48% gegn 39%, en Ólafur Ragnar á landsbyggðinni, 47% gegn 41%. Ólafur er vinsælli meðal karla, 47 prósent þeirra myndu kjósa hann en 41% Guðna. Guðni er vinsælli meðal kvenna, 48% myndu kjósa hann en 39% Ólaf. Marktækur munur mældist ekki á aldurshópum nema hjá þeim sem eru yfir sjötugu, þar var Ólafur Ragnar með mun meira fylgi en Guðni, 63% gegn 32%.
Ólafur Ragnar mælist með sterkan stuðning hjá kjósendum ríkisstjórnarflokkanna, um 72% kjósenda Framsóknarflokksins styðja hann og 53% kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Guðni nýtur mikils stuðnings meðal kjósenda annarra flokka: 52% Pírata, 67% kjósenda Samfylkingar og 74% kjósenda VG myndu kjósa hann frekar en Ólaf.
Enginn framsóknarmaður vill Andra Snæ
Frjáls verslun spurði einnig um hvern fólk myndi velja ef valið stæði á milli Ólafs Ragnars, Guðna Th. og Andra Snæs Magnasonar, sem hefur lýst yfir framboði til forseta.
Fylgi Ólafs Ragnars hélst nær óbreytt við þetta, 41,3%. Guðni lækkar hins vegar í 33,9% og Andri Snær fær 11,6% fylgi. Yfir 13 prósent svarenda sögðust óviss eða ekki vilja neinn þeirra. Ef aðeins eru skoðaðir þeir sem taka afstöðu fengi Andri Snær 13,4%, Guðni Th. 39% og Ólafur Ragnar 47,6%.
Andri Snær fær mest fylgi frá stuðningsmönnum Pírata og VG, um 30% hvors hóps. Enginn kjósandi Framsóknarflokksins lýsti yfir stuðningi við Andra Snæ í könnuninni.
Breytist verulega við opið val
Að síðustu var spurt hvern fólk myndi kjósa ef það mætti nefna hvaða Íslending sem er. Þá var fjórðungur aðspurðra óviss, og fylgi við Ólaf Ragnar lækkar töluvert. Ef miðað er við heildina fengi Ólafur Ragnar 24% stuðning og Guðni 20%. Katrín Jakobsdóttir fengi 6% og Andri Snær 4%. Aðrir fengju minna fylgi.
Könnun Frjálsrar verslunar var gerð 26. apríl til 1. maí og voru gild svör 445 talsins. Vikmörk í slíkri könnun geta verið um 5 prósent.