Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærsti flokkur landsins með 28,2% fylgi í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur gert, og sagt er frá í Morgunblaðinu í dag. Píratar mælast með 25,8% fylgi. Staða þessara tveggja flokka hefur breyst talsvert frá því um áramót, en þá mældust Píratar með 35,3% en Sjálfstæðisflokkurinn 25,2%.
Stuðningur við Vinstri-græn eykst og er 18,9%. 8,9% segjast styðja Samfylkinguna og 8,2% Framsóknarflokkinn. Björt framtíð mælist með 4,4% og næði því ekki inn manni og Viðreisn, sem verður formlega stofnuð í næstu viku, 3,5%. Dögun og Alþýðufylkingin eru mæld í könnuninni og fengju 0,9% og 0,5%, og 0,7% segjast myndu kjósa annan flokk.
„Hreyfingin virðist helst á milli núverandi stjórnarandstöðuflokka og að hluta til frá Framsókn. Lengi lá straumur til Pírata en nú færist fylgið að hluta til VG. Samfylking virðist ekkert taka til sín frá Pírötum,“ segir Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur við Háskólann á Akureyri, við Morgunblaðið í dag. Hann segir ekki koma á óvart að Framsóknarflokkurinn mælist svona lágt, en segir að hugsanlega sé aukinn stuðningur við VG til marks um það að flokkurinn hafi hreina ásýnd í aflandsumræðunni. „Kjósendur Sjálfstæðisflokks eru ekki jafn viðkvæmir fyrir þeirri umræðu.“
Tæplega tíu prósent svarenda í könnun Félagsvísindastofnunar voru óákveðnir eða vildu ekki svara, 1,1% sögðust ekki ætla að kjósa og 5,6% sögðust ætla að skila auðu í kosningum.
Svipuð staða í könnun 365
Sjálfstæðisflokkurinn og Píratar mældust líka mest fylgi í könnun 365 miðla frá því í síðustu viku. Sjálfstæðisflokkur mældist með örlítið meira fylgi, 31,3 prósent, en Píratar með 30,3 prósent. Vinstri græn mældust með 19,8 prósenta fylgi. Samfylkingin mældist með 7,4 prósent og Framsóknarflokkur með 6,5 prósent. Björt framtíð mældist með 3,1 prósent.