Nýir búvörusamningar skaða bæði hagsmuni bænda og neytenda, verði þeir samþykktir af Alþingi óbreyttir. Nauðsynlegt sé að taka þá til gagngerrar endurskoðunar til að tryggja almannahagsmuni. Verið er að taka enn stærra skref í að undanþyggja mjólkuriðnaðinn frá samkeppnislögum. Þetta er mat Samkeppniseftirlitsins í umsögn sem send var atvinnuveganefnd Alþingis á mánudag og RÚV greinir frá.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skrifaði undir samningana í vetur, en þeir hlutu ekki afgreiðslu Alþingis fyrir sumarfrí. Stefnt er að því að afgreiða þá í haust, fyrir kosningar.
Samkeppniseftirlitið segir í umsögn sinni að raunar virðist ljós að ef frumvarpið verði óbreytt að lögum muni það koma í veg fyrir eða takmarka beitingu banns á misnotkun á markaðsráðandi stöðu gagnvart afurðastöðvum í mjólkuriðnaði. Þá virðast þær sérreglur sem settar eru um markaðsráðandi afurðarstöðvar skapa keppinautum og neytendum jafnframt minni vernd heldur en núgildandi lög.
Þá spyr Samkeppniseftirlitið jafnframt Alþingi hvort það sé reiðubúið að samþykkja sérreglur um Mjólkursamsöluna áður en rannsókn á fyrirtækinu vegna hugsanlegs brots á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé lokið.