Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi í nýjustu kosningaspánni og mælist með 24 prósenta fylgi. Píratar eru sem fyrr með mest fylgi í kosningaspánni. Þeir mælast með 28,3 prósent og standa nánast í stað. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 26,5 prósent fylgi þegar kosningaspáin var gerð síðast, 14. júní síðastliðinn.
Viðreisn mælist nú í fyrsta sinn stærri en Samfylkingin í kosningaspánni. Framboðið mælist með 8,2 prósent fylgi, um það bil einu og hálfu prósentustigi meira en það gerði síðast. Samfylkingin hækkar örlítið milli kosningaspáa og mælist nú með 7,8 prósent fylgi.
Vinstri græn eru þriðja stærsta stjórnmálaaflið sem hyggst bjóða fram til Alþingis í kosningum í haust. Flokkurinn mælist með 16,8 prósent fylgi, örlítið meira en hann var með síðast. Framsóknarflokkurinn er fjórði stærsti flokkurinn, með 10 prósenta fylgi.
Björt framtíð mælist enn með minna en fimm prósent í kosningaspánni. Flokkurinn er nú með 4,5 prósent í kosningaspánni. Ætla má að flokkur þurfi að fá um fimm prósent atkvæða á landsvísu til að ná kjöri til Alþingis. Erfitt er hins vegar að fjölyrða um slíkt því eitt framboð gæti verið að sækja meiri stuðning í eitt kjördæmi umfram önnur. Enn er ekki farið að kanna stuðning innan hvers kjördæmis fyrir sig.
Þá er að segja af Dögun sem mælist með 0,4 prósent í kosningaspánni. Önnur framboð mælast ekki.
Nýjasta kosningaspáin var gerð 24. júní. Fyrirliggjandi kannanir á fylgi framboða til Alþingis voru vigtaðar til að áætla raunhæfa mynd af fylgi við stjórnmálaflokka. Þær kannanir sem liggja til grundvallar nýjustu kosningaspánni eru:
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnun HÍ fyrir Morgunblaðið 19. til 22. júní (vægi 32,1%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnun HÍ fyrir Morgunblaðið 8. til 12. júní (vægi 20,3%)
- Skoðanakönnun Félagsvísindastofnun HÍ fyrir Morgunblaðið 1. til 2. júní (vægi 14,5%)
- Þjóðarpúls Gallup 28. apríl til 29. maí (vægi 23,1%)
- Skoðanakönnun Fréttablaðsins 23. til 24. maí (vægi 10,0%)
Hvað er Kosningaspáin?
Kosningaspálíkan Baldurs Héðinssonar miðar að því að setja upplýsingarnar sem skoðanakannanir veita í samhengi. Fyrirliggjandi skoðanakannanir eru teknar saman og þeim gefið vægi til þess að spá fyrir um úrslit kosninga. Kjarninn birti Kosningaspá Baldurs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar og reyndist sú tilraun vel. Á vefnum kosningaspá.is má lesa niðurstöður þeirrar spár og hvernig vægi kannana var í takt við frávik kannana miðað við kosningaúrslitin. Nánar má lesa um kosningaspána hér.
Áreiðanleiki könnunaraðila er reiknaður út frá sögulegum skoðanakönnunum og kosningaúrslitum. Einnig hefur það vægi hversu langt er síðan könnunin var framkvæmd og svo hversu margir svara í könnununum.