Yfirmanni á ljósmyndadeild fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækisins 365 var sagt upp störfum í morgun, en hann hafði verið í leyfi frá störfum um margra mánaða skeið eftir að hafa kvartað undan einelti útgefanda og aðalritstjóra fyrirtækisins.
Maðurinn, Pjetur Sigurðsson, staðfestir í samtali við Kjarnann að honum hafi verið sagt upp störfum í morgun. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig frekar um málið. Hvorki náðist í Sævar Frey Þráinsson, forstjóra 365, né Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra og útgefanda 365, við vinnslu fréttarinnar.
Fréttatíminn greindi fyrst frá eineltismálinu í maí síðastliðnum. Þar kom fram að eftir að Pjetur hafi kvartað undan meintu einelti Kristínar Þorsteinsdóttur aðalritstjóra hafi mannauðsstjóri fyrirtækisins sett í gang formlega athugun á málinu. Þeirri athugun hafi hins vegar verið hætt eftir að Kristín komst á snoðir um málið, og þá hafi Pjetur farið í leyfi. Þetta hafi verið í byrjun maí. Skömmu síðar lét mannauðsstjórinn af störfum hjá fyrirtækinu.
Fyrir rúmum tveimur árum kom upp eineltismál á RÚV, þegar fyrrverandi íþróttafréttamaðurinn Adolf Ingi Erlingsson kvartaði undan einelti yfirmanns, Kristínar Hálfdanardóttur, í sinn garð. Hann gerði það meðal annars við mannauðsstjóra stofnunarinnar. Honum var sagt upp störfum og BHM fór í mál við Ríkisútvarpið fyrir hans hönd til að krefjast biðlauna. RÚV var sýknað af öllum kröfum Adolfs Inga í héraðsdómi í janúar.