Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segist hafa verið eltur á ferðum sínum erlendis af kröfuhöfum í bú föllnu bankanna á meðan hann var forsætisráðherra. Einnig segist hann hafa heimildir fyrir því að brotist hafi verið inn í tölvuna hans. Honum hafi jafnvel borist boð um að hitta fulltrúa kröfuhafa í einrúmi á afskekktum stöðum svo hægt væri að leysa málin. Frá þessu greindi Sigmundur í ræðu sinni á haustfundi miðstjórnar Framsóknarflokksins sem fram fer í Hofi á Akureyri í dag.
Við eftirgrennslan Kjarnans staðfesti Sigmundur Davíð það sem hann fullyrti í ræðu sinni um að reynt hafi verið að brjótast inn í tölvuna hans. „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni. Hann hafi látið yfirfara hana hjá öryggisfulltrúa í stjórnarráðinu og þar hafi fundist merki um að reynt hafi verið að brjótast inn.
Í ávarpi hans á fundinum kom fram að vegna þessa hafi hann gripið til þess ráðs að hafa svokallaðan „svartan kafla“ í ræðu sem hann hélt á flokksþingi Framsóknarflokksins í fyrra. Svarti kaflinn var kafli sem enginn fékk að lesa, ekki einu sinni hans helstu ráðgjafar, vegna þess að þar var yfirlýsingin um að skattur yrði settur á slitabúin. Sigmundur hafi ekki viljað varpa þeim bagga á nokkurn mann að þurfa að vita af þessu né láta það spyrjast út, enda um mikla hagsmuni að ræða.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíð, segir í samtali við Kjarnann að hann hafi sjálfur verið vitni af þessu á ferðum sínum með Sigmundi. Hinir og þessir hafi dúkkað upp, jafnvel andlit sem töluvert hefur verið talað um í fjölmiðlum, hafi viljað ná af honum tali með ýmsum ráðum og eftir ýmsum leiðum. Sigmundur fjallaði sérstaklega um ferðir sínar í London og Norður-Dakóta þar sem kröfuhafar hafi setið um fyrir honum.