Framboð Guðna Th. Jóhannessonar til forseta Íslands kostaði rúmlega 25 milljónir króna. Þetta kemur fram í úrdrætti Ríkisendurskoðunar á uppgjöri Guðna, en allir frambjóðendur verða að skila slíku uppgjöri eftir kosningar.
Framlög fyrirtækja til Guðna námu tæplega ellefu milljónum króna en framlög einstaklinga rúmlega 13 milljónum. Guðni setti sjálfur rúma milljón í framboðið. Tekjur framboðsins námu því samtals rúmlega 26 milljónum króna, svo að afgangur upp á 1,2 milljónir var að kosningabaráttunni lokinni.
Níu einstaklingar gáfu framboði Guðna á bilinu 250 þúsund til 400 þúsund krónur, en tilgreina þarf framlög sem eru yfir 200 þúsund krónum sérstaklega. Auk þess gáfu 860 einstaklingar til viðbótar samtals 10 milljónir króna.
Meðal þeirra fyrirtækja sem gáfu framboði Guðna hámarksframlag, sem er 400 þúsund krónur, eru Alvogen, Atlantsolía, Hekla, Samskip, Tryggingamiðstöðin, WOW Air og Ölgerðin. Einnig gaf almannatengslafyrirtækið KOM hámarksupphæð, en Friðjón Friðjónsson, einn eiganda fyrirtækisins, var í kosningateymi Guðna.
Ekki hafa verið birt uppgjör annarra frambjóðenda sem fengu mest fylgi í kosningunum, það er þeirra Höllu Tómasdóttur, Davíðs Oddssonar og Andra Snæs Magnasonar. Guðrún Margrét Björnsdóttir og Hildur Þórðardóttir hafa skilað sínum uppgjörum. Framboð Guðrúnar kostaði 536 þúsund krónur, þar af lagði hún sjálf til 386 þúsund krónur og Gunnar Eggertsson hf. 150 þúsund krónur. Hildur eyddi innan við 400 þúsund krónum í sitt framboð og þarf því aðeins að skila yfirlýsingu þar um, en ekki uppgjöri.