Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, útilokaði í morgun að flokkurinn myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Hann hafði raunar gert það fyrir kosningar en ítrekaði þetta á Rás 2 nú rétt fyrir hádegi. Hann sagðist hafa sagt það margoft fyrir kosningar að slík stjórn verði ekki mynduð, og að það sem hann segði fyrir kosningar gilti líka eftir kosningar.
Hann sagðist ekki hafa heyrt frá forseta Íslands á Bessastöðum, en sagði jafnframt að flokkurinn væri tilbúinn að leiða stjórnarmyndunarviðræður.
Hann sagðist vera sammála því sem bæði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi sagt í nótt, að úrslitin væru ákall um meiri breidd í stjórnarmynstri. „Ég held að það væri eðlilegt ef menn skoða það. Ég er sammála þeim hugsunum, við höfum lagt áherslu á það að leita sameiginlegra lausna og það væri eðlilegt að skoða það út frá miðjunni.“