290 fleiri Íslendingar fluttu burt frá Íslandi en fluttust til landsins á þriðja ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni. 1.120 manns fluttu til landsins á þessum ársfjórðungi, en 1.410 fluttu burt.
Alls hafa því 250 fleiri Íslendingar flutt í burtu frá landinu en hafa flutt aftur til landsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Á fyrsta ársfjórðungi fluttu 110 fleiri burt en fluttu til landsins og á öðrum ársfjórðungi voru aðfluttir umfram brottflutta hins vegar 150.
Flestir hafa flutt til Norðurlandanna, en 1.830 Íslendingar hafa flutt til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs á fyrstu níu mánuðum ársins.
Eitt mesta brottflutningsár í fyrra
Í fyrra fluttu 1.265 fleiri íslenskir ríkisborgarar úr landi en fluttu til landsins. Árið var eitt mesta brottflutningsár frá því að mælingar á þessu hófust, og aðeins fimm sinnum frá árinu 1961 höfðu marktækt fleiri brottfluttir verið umfram aðflutta, samkvæmt gagnagrunni Hagstofunnar. Það var alltaf í kjölfar kreppuára, eða árin 107, 1995, 2009, 2010 og 2011, en árið 2015 skar sig því töluvert úr af því að ekki ríkti kreppa hér á landi.
Hagstofan spáir áframhaldi næstu 50 árin
Og samkvæmt Hagstofunni er ekki neitt útlit fyrir að þessi þróun muni breytast. Því er þvert á móti spáð í mannfjöldaspá Hagstofunnar fyrir árin 2016 til 2065 að „íslenskir ríkisborgarar sem flytja frá landinu munu halda áfram að vera fleiri en þeir sem flytja til landsins.“ Því er spáð að að meðaltali verði um 850 íslenskir ríkisborgarar brottfluttir en aðfluttir á hverju ári.
Fjöldi aðfluttra umfram brottflutta verður hins vegar meiri áfram, en það er fyrst og fremst vegna erlendra innflytjenda.