Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, reyna nú öðru sinni að mynda ríkisstjórn en fyrri tilraun þeirra endaði með því að þeim tókst ekki að ná saman, og missti Bjarni þá stjórnarmyndunarumboðið.
Eftir að viðræður fimm flokka undir stjórn Katrínar Jakobsdóttur, formanna Vinstri grænna, fóru út um þúfur hafa formenn flokkanna þriggja reynt aftur að ná saman og samkvæmt frétt RÚV hafa þeir meðal annars rætt um sjávarútvegsmál í dag.
Í fyrri viðræðum voru ólíkar áherslur í sjávarútvegsmálum meðal þess sem á steytti. Viðreisn og Björt framtíð hafa talað fyrir markaðsleið í sjávarútvegi þar sem hluti aflaheimilda er boðinn upp, en Sjálfstæðisflokkurinn hefur almennt ekki viljað kerfisbreytingar við stjórnun fiskveiða. Þá var einnig deilt um það hvort fara ætti fram þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið, en það er eitt af stefnumálum Viðreisnar og Björt framtíð hefur talað fyrir því einnig.
Fari svo að þessi flokkar nái saman þá verður meirihlutinn sem hún hefur á bak við sig eins veikur og hugsast getur, eða 32 þingmenn af 63. Þingmenn Viðreisnar hafa verið boðaðir á fund til að ræða stöðu viðræðnanna, og er fundað í Alþingishúsinu.