Seltjarnarnes hefur gert samning um að kaupa ýmis námsgögn fyrir börn í 1-6 bekk í Mýrarhúsarskóla við fyrirtækið A4, sem er í eigu félaga forstjóra þess, Egils Þórs Sigurðssonar. Egill er eiginmaður formanns bæjarráðs og skólanefndar Seltjarnarness, Sigrúnar Eddu Jónsdóttur. Samningurinn var gerður að undangenginni samþykkt í skólanefndinni um að ráðast í kaup á ritföngunum. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Sigrún Edda að hún hafi ekki komið nálægt málinu frá því að samþykkt var í skólanefndinni að greiða hluta námsgagna yngri bekkjanna. „ Auðvitað er svona alltaf óheppilegt, ég játa það, en ég hef aldrei komið nálægt ritfangakaupum skólans eða bæjarins.“
Í blaðinu segir að leitað hafi verið eftir tilboðum hjá helstu heildsölum og ritfangaverslunum og A4 hafi átt lægsta tilboðið. Heildarkostnaður Seltjarnarness vegna kaupanna á þó enn eftir að koma í ljós.
Sigrún Edda var meðeigandi A4 á árum áður og starfaði við fjármál og eignaumsýslu þess til ársins 2011. Hún situr í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er með hreinan meirihluta á Seltjarnarnesi. Hún segir við Fréttablaðið að hún skilji að málið veki tortryggni. Hún eigi hins vegar ekki A4, heldur maðurinn hennar. „En auðvitað er ég mikill hagsmunaaðili, það er ekki spurning. En ég hef aldrei komið nálægt innkaupum bæjarins á ritföngum, það er bara ekki hægt.“