Þó vel hafi tekist til í málefnum bólusetninga hér á landi er ljóst að árangurinn er ekki sjálfgefinn. Á undanförnum árum hefur andstaða gegn bólusetningum farið vaxandi víða um heim, sem hefur leitt til minni þátttöku í mörgum löndum með þeim afleiðingum að bólusetningasjúkdómar hafa blossað upp með skelfilegum afleiðingum. Þó velvilji almennings í garð bólusetninga sé mikill á Íslandi gæti áróður andbólusetningasinna leitt til minnkandi þátttöku sem myndi auka á tíðni bólusetningasjúkdóma.
Þetta kemur fram í grein um bólusetningar eftir Þórólf Guðnason, sóttvarnalækni hjá embætti landlæknis, í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.
Höfundur segir að því sé mikilvægt að standa vörð um þann árangur sem náðst hefur með nauðsynlegri fræðslu fyrir almenning, heilbrigðisstarfsmenn og heilbrigðisyfirvöld til að tryggja áframhaldandi góða þátttöku. Einnig sé mikilvægt að huga að notkun nýrra bóluefna hjá börnum hér á landi eins og við hlaupabólu, lifrarbólgu B, rótaveiru og árlegri inflúensu.
Bólusetningar verja einnig þá óbólusettu
Í greininni segir að bólusetningar séu taldar vera ein arðbærasta fyrirbyggjandi aðgerð sem völ er á í heilbrigðismálum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætli að bólusetningar komi árlega í veg fyrir um 2 til 3 milljónir dauðsfalla og að auki margar milljónir alvarlegra afleiðinga bólusetningasjúkdóma. Hins vegar fái milljónir manna ekki nauðsynlegar bólusetningar með þeim afleiðingum að um 1,5 milljón deyr árlega af völdum sjúkdóma sem koma hefði mátt í veg fyrir. Óhætt sé því að fullyrða að bólusetningar hafi komið í veg fyrir hundruðir milljóna alvarlegra afleiðinga smitsjúkdóma á þeim rúmlega 200 árum sem liðið hafa frá því að þær komu fyrst fram.
„Bólusetningu má flokka sem fyrsta stigs forvörn og er hún áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsjúkdóma og alvarlegar afleiðingar þeirra. Bólusetning er læknisfræðileg aðgerð sem miðar að því að hindra að næmir einstaklingar sýkist af smitsjúkdómi. Á síðari árum hafa aðrir notkunarmöguleikar bólusetninga einnig orðið mönnum ljósir, þar á meðal við meðferð langvinnra smitsjúkdóma (HIV og lifrarbólgu B) og krabbameina en þessi notkun er hins vegar ekki orðin eins þróuð og hefðbundin fyrirbyggjandi meðferð gegn smitsjúkdómum.
Bólusetningar verja ekki einungis þá sem eru bólusettir heldur einnig þá sem eru óbólusettir (hjarðónæmi), að því gefnu að almenn þátttaka í samfélaginu sé 80 til 95 prósent. Því er mikilvægt að halda uppi góðri þátttöku í bólusetningum svo koma megi í veg fyrir faraldra hættulegra smitsjúkdóma.“
Frábær árangur almennra bólusetninga á Íslandi
Segir í greininni að fá lyf undirgangist eins viðamiklar og strangar rannsóknir hvað öryggi og árangur varðar og bóluefni áður en þau eru tekin í almenna notkun. „Áður en bóluefni eru sett á markað eru þau rannsökuð hjá mörg þúsund einstaklingum til að kanna árangur þeirra og öryggi. Þessar rannsóknir geta hins vegar misst af mjög sjaldgæfum aukaverkunum og því er einnig fylgst náið með hugsanlegum aukaverkunum bóluefna eftir að þau hafa verið tekin í almenna notkun.
Með þessu móti er hægt að finna mjög sjaldæfar aukaverkanir og endurmeta notkun bóluefnanna. Niðurstöður slíkra rannsókna hafa sýnt að alvarlegar aukaverkanir bóluefna sem notuð eru hjá börnum í almennum bólusetningum eru mjög fátíðar, eða um ein aukaverkun á hverjar 500.000 til 1.000.000 bólusetningar. Þetta þýðir að á Íslandi má búast við einni alvarlegri aukaverkun á um 40 ára fresti. Fjöldi aukaverkana er þannig óverulegur í samanburði við þann árangur sem sést af bólusetningum.“
Þórólfur segir að þegar litið er á árangur almennra bólusetninga hér á landi sé hægt að fullyrða að hann sé frábær. Allar hafi bólusetningarnar nánast útrýmt þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn og hafi þær þannig komið í veg fyrir fjölda dauðsfalla og annarra alvarlegra afleiðinga.
Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.