Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands mun birta nýja vaxtaákvörðun sína á vef Seðlabankans eftir kl. 8 í fyrramálið, en frá þessu er greint í tilkynningu á vef Seðlabankans. Áður hafði verið áætlað að næsta vaxtaákvörðun yrði kynnt 18. mars og því er verið að flýta ákvörðuninni um eina viku.
Vefútsending verður á vef bankans kl. 10 í fyrramálið, en þar munu Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar.
Á vef Seðlabankans má sjá merki þess að bankinn sé að bregðast við kórónuveirufaraldrinum og þá með öðrum hætti en einungis hvað peningastefnuna varðar.
Þar segir í nýjustu fréttum að myntsafni bankans og Þjóðminjasafnsins hafi verið lokað um óákveðinn tíma og málstofu sem bankinn ætlaði að halda um hækkandi lífaldur og umbætur í lífeyriskerfinu hefur sömuleiðis verið frestað.