Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var spurður út í tillögu Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að þau lönd þar sem gögn sýndu að tekist hefði að ná tökum á útbreiðslu farsóttarinnar myndu skoða frjálsari för ríkisborgara sín á milli.
Hann svaraði og sagði að þetta væri eitt af þeim atriðum sem hefði verið velt upp. Þetta væri eitt af því sem þyrfti að skoða verulega vel.
Þórólfur benti á í þessu samhengi að oft væri mismunandi skimað milli landa og í raun og veru væru mjög fá lönd sem hefðu skimað eins og Íslendingar. „Við sjáum til dæmis lönd eins og Svíþjóð sem hefur skimað mjög lítið miðað við hin Norðurlöndin enn sem komið er og þar gæti maður haldið að útbreiðsla sjúkdómsins væri kannski ekkert voðalega mikil meðan þeir eru með mjög miklar afleiðingar af sjúkdómnum.“
Þannig þyrfti jafnframt að spyrja hvort hægt væri að treysta þeim tölum sem koma frá hinum ýmsu löndum og hvort útbreiðslan væri raunverulega eins mikil og af er látið. „Þetta þarf bara að skoða mjög vel og þetta er klárlega eitthvað sem kemur inn í þessa umræðu,“ sagði Þórólfur.
Kjarninn greindi frá því í dag að viðbrögð við COVID-19 og næstu skref hefðu verið rædd á fjarfundi leiðtoga íhaldsflokka Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í morgun. Öll ríkin hefðu gripið til umfangsmikilla ráðstafana til að bregðast við faraldrinum og hefðu tilslakanir á þeim aðgerðum verið til umræðu.
Á fundinum lagði Bjarni til að þau lönd þar sem gögn sýndu að tekist hefði að ná tökum á útbreiðslu farsóttarinnar myndu skoða frjálsari för ríkisborgara sín á milli. Undir það var tekið en jafnframt undirstrikað að þau ríki sem ættu aðild að ESB þyrftu einnig að fjalla um það á þeim vettvangi.
Stjórnvöld á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum hafa lagt drög að tilslökunum á sóttvarnaraðgerðum á næstu vikum, en ekki er um samræmdar aðgerðir að ræða, segir í tilkynningu um fundinn á vef Sjálfstæðisflokksins, enda misjafnt til hversu víðtækra takmarkana hefur verið gripið í hverju landi fyrir sig.