Góðan og blessaðan daginn.
Þannig hóf Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ávarp sitt á blaðamannafundi í Safnahúsinu í dag. Fundurinn var haldinn til að tilkynna að nú hefði verið stigið skref til baka í aðgerðum stjórnvalda – aðeins 100 mega koma saman í stað 500 eins og verið hefur síðustu vikur. Tveggja metra reglan er orðin að sannkallaðri reglu en ekki tilmælum og ef henni verður ekki viðkomið skal fólk bera andlitsgrímur. Það er nýtt. Alveg nýtt.
Víðir hefur ítrekað ávarpað okkur með þessum upphafsorðum síðustu mánuði. Það gerði hann á öllum upplýsingafundum vetrarins og fram á sumar. Með sínu ákveðna en hlýlega fasi var það jú hann sem sagði okkur að ferðast innanhúss um páskana og var sá sem slagorðið „Ég hlýði Víði“ snerist um.
Nú biður Víðir okkur aftur að hlýða sér. Eftir að hafa verið í fríi – vissulega verðskulduðu – var hann mættur á ný til að stappa í okkur stálinu. Biðja okkur að standa saman.
„Ein af stóru ástæðunum fyrir því að þetta gekk vel hjá okkur í vetur var að við gripum til aðgerða, við gripum til alvarlegra aðgerða og við gripum til þeirra snemma,“ sagði Víðir. „Þess vegna þurftum við ekki að fara í lokanir og harkalegar aðgerðir eins og mörg önnur lönd þurftu síðar.“
Hann sagði að enn værum við ekki komin á þann stað að neyðarástand ríkti „og með sameiginlegum aðgerðum þá ætlum við að koma í veg fyrir að við lendum þar,“ sagði hann með áherslu.
Og svo sagði hann það sem við öll sem hlustuðum á heilbrigðisráðherra boða hertar aðgerðir vorum að hugsa: „Þetta er auðvitað hundfúlt en samt að einhverju leyti það sem við gátum búist við.“
Að aðeins hundrað manns megi koma saman í stað 500 síðustu vikur er ekki eitt skref til baka heldur nær tveimur. Yfirvöldum er alvara.
„Nú er málið að standa saman og tækla þetta af ábyrgð. Látum þetta ekki hræða okkur eða pirra okkur en það eru samt sem áður eðlileg viðbrögð. Verum ekki reið – verum umburðarlynd.“
Hann, líkt og allir sem voru á fundinum, sagði að nú giltu „sem aldrei fyrr“ hinar einstaklingsbundnu smitvarnir. „Ef þú ert með einkenni – vertu heima, jafnvel þó að þau séu smávægileg. Láttu taka hjá þér sýni.“
Svo kom að því sem ekki má:
„Ekki heilsast með handabandi. Ekki faðmast. Ekki vera að fara í hópa með fólki sem þú þekkir ekki ef þú ert í áhættuhópi. [...] Handþvottur og sprittun gildir núna sem aldrei fyrr.“
Og með ákveðni bætti hann við: „Ef þú færð boð í skimunina sem er í gangi: Mættu!“
Hinar hertu aðgerðir taka gildi á hádegi á morgun, föstudag. Daginn fyrir þá helgi sem undanfarna áratugi hefur verið kölluð mesta ferðahelgi ársins. „Þetta er stuttur tími til undirbúnings en við kunnum þetta. Við vorum að gera þetta í maí, þurfum að rifja þetta upp og virkja aftur verklag og leiðbeiningar.“
Víðir benti svo á að ekki stæði til að „loka öllu“ en í faraldrinum í vetur var allri þjónustu sem krafðist nándar hætt tímabundið. „Við ætlum að setja þetta í hendur rekstraraðila, að vera ábyrgir og taka sjálfstæðar ákvarðanir. Viðmiðið er hundrað manns á sama stað. Og það er mikilvægt að við lítum á þetta sem sóttvarnaráðstöfun og förum ekki að leita leiða í kringum þetta. Hættum að búa til endalaus sóttvarnahólf og slíkt.“
Svo var komið að lokaorðum Víðis sem voru alltaf full af vinalegum boðskap á upplýsingafundum vetrarins. Þannig var það einnig nú.
„Við höfum gert þetta. Við höfum getað þetta og við getum þetta núna. Við gerum þetta saman. Ég vil beina orðum mínum sérstaklega til unga fólksins sem hefur verið spennt mjög lengi að fara í útilegu og skemmta sér með vinum og kunningjum núna um helgina. Við verðum að láta þetta bíða. Við höfum margoft sagt það að sumarið 2020 er hið skrítnasta sumar. Búum til öðruvísi minningar, verum heima með fjölskyldunni, látum lífið halda áfram og verum góð hvert við annað.“