88,5 prósent Íslendinga vilja taka á móti einhverjum fjölda flóttamanna frá Sýrlandi, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. Töluverður mismunur er hins vegar á því hversu mikinn fjölda fólks svarendur töldu að taka ætti á móti.
19,1% sagði að taka ætti á móti allt að 50 flóttamönnum. 14% vilja taka við allt að 150 flóttamönnum og 25,5 prósent bilja taka á móti 151 til 500 flóttamönnum. Stærsti hópurinn, eða 30,2%, vilja taka á móti fleiri en 500 flóttamönnum frá Sýrlandi.
Þeir sem studdu ríkisstjórnina voru neikvæðari gagnvart því að taka á móti flóttamönnum en aðrir. Þannig sögðu 15%stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar að ekki ætti að taka á móti neinum flóttamönnum, og 27% vildu taka allt að 50 flóttamenn. Stuðningsmenn Framsóknarflokksins eru líklegri en aðrir til að vilja taka enga eða fáa flóttamenn. 18 prósent kjósenda Framsóknar vilja ekki að Ísland taki á móti neinum flóttamanni, og 34 prósent telja að aðeins eigi að taka við allt að 50 flóttamönnum. 12 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins vilja ekki taka á móti neinum flóttamönnum en 29 prósent vilja taka á móti allt að 50 flóttamönnum.
Meðal þeirra sem ekki styðja ríkisstjórnina sögðu 9 prósent að ekki ætti að taka á móti neinum flóttamönnum og 14 prósent vildu taka allt að 50 flóttamenn.