AFL-sparisjóður verði seldur í skilgreindu ferli fyrir 1. ágúst 2015. Arion banki hefur þegar auglýst sparisjóðinn til sölu í samræmi við framangreinda sátt, með auglýsingu í Viðskiptablaðinu. Þar er fjárfestum sem vilja taka þátt í útboðinu gefinn frestur til að skila upplýsingum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu, en með ákvörðun nr. 9/2015 sem birt er í dag er tekin afstaða til yfirráða Arion banka hf. yfir AFLi-sparisjóði ses. „Ákvörðunin grundvallast á sátt sem Samkeppniseftirlitið og Arion banki hafa gert með sér á grundvelli samkeppnislaga. Sáttin var gerð í framhaldi af því að Arion banki hafði öðlast full yfirráð yfir sparisjóðnum með breytingum á samþykktum sjóðsins, sem takmarkað höfðu atkvæðavægi bankans. Af því tilefni hafði Arion banki lýst því yfir að hann hyggðist selja hlut sinn í sjóðnum í opnu söluferli,“ segir í tilkynningu frá eftirlitinu.
AFL-sparisjóður starfar í óbreyttu horfi á sölutímabilinu og Arion banka er óheimilt að grípa til nokkurra ráðstafana sem raskað geta samkeppnislegu sjálfstæði AFLs, að því er segir í tilkynningunni. Óháðir kunnáttumenn skulu fylgjast með söluferlinu og framfylgd bankans við skilyrði sem sett hafa verið fyrir yfirráðum bankans á sparisjóðnum, segir enn fremur.
DV greinir frá því í dag, að efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Íslands þegar kemur að hinni svonefndu leiðréttingu, Tryggvi Þór Herbertsson, hafi hug á því að kaupa AFL-sparisjóð og sé í viðræðum við fjárfesta um þátttöku í þessum viðskiptum. Meðal þeirra sem nefndir eru sem mögulegir þátttakendur í viðskiptunum eru Kaupfélag Skagfirðinga og aðrir fjárfestar á Norðurlandi.
Skili sölutilraunir Arion banka ekki árangri innan sölufrestsins, er Arion banka heimilt að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, með það að markmiði að sameina sparisjóðinn bankanum, að því er segir í tilkynningunni.