Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem átti tæplega tíu prósent hlut í Kaupþingi fyrir fall hans, voru allir dæmdir sekir í Al-Thani málinu í Hæstarétti í dag. Hreiðar Már fékk fimm og hálfs árs fangelsi, Sigurður fjögur ár, Ólafur og Magnús fjögur og hálft ár.
Dómur féll í héraði í málinu 12. desember 2013 og voru sakborningarnir fjórir allir dæmdir til fangelsisvistar. Hreiðar Már í fimm og hálft ár, Sigurður í fimm ár, Magnús í þrjú og Ólafur í þrjú og hálft ár. Dómur Hreiðars Más var því staðfestur í Hæstarétti, dómur Sigurðar mildaður um eitt ár, en dómar Ólafs og Magnúsar voru þyngdir. Enginn sakborninganna var viðstaddur dómsuppkvaðningu.
Al-Thani málið, sem er eitt umfangsmesta efnahagsbrotamál sem komið hefur á borð dómstóla hér á landi, á rætur að rekja til hlutabréfakaupa sheikh Mohammad Bin Khalifa Al-Thani frá Katar hinn 22. september 2008 en félag hans keypti 5,01 prósenta hlut í Kaupþingi banka fyrir 25,7 milljarða króna með láni frá bankanum. Al-Thani er yngri bróðir emírsins í Katar en hann var persónulegur vinur Ólafs Ólafssonar þegar málið komið upp.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, hlaut þyngsta dóminn í málinu í héraði, fimm og hálfs árs fangelsi.
Voru fjórmenningarnir dæmdir fyrir markaðsmisnotkun á grundvelli laga um verðbréfaviðskipti og umboðssvik samkvæmt hegningarlögum, en ákæran byggði ekki síst á því að Kaupþing hefði fjármagnað fyrrnefnd kaup og að blekkingum hefði verið beitt til þess að fela það. Hreiðar Már, Sigurður, Magnús og Ólafur hafa staðfastlega haldið fram sakleysi sínu í málinu frá því ákæra á hendur þeim í Al-Thani málinu var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hinir dæmdu áfrýjuðu allir niðurstöðu héraðsdóms til Hæstaréttar og fór munnlegur málflutningur fram þar seinni partinn í janúar. Nú liggur niðurstaða Hæstaréttar fyrir.