„Ég hef ekki brotið af mér með neinum hætti í þessu máli,“ fullyrðir rödd Hönnu Birnu Kristjánsdóttur á meðan stefið úr Sönnum íslenskum sakamálum hljómar. Í sömu andrá birtast myndir af Hönnu Birnu og Gísla Frey Valdórssyni á skjánum undir fyrirsögninni „Leka-trouble“.
Hér er upphafsskjánum í tölvuleiknum Leka Trouble lýst en leikinn hefur Bjarki Þór Sigvarðsson, nemi í Háskóla Íslands, útbúið og hýsir á vefsvæði sínu hjá Háskólanum. Fyrirmyndin er Bubble Trouble-tölvuleikurinn sem var vinsæll vefleikur fyrir nokkrum árum.
Spilarinn leikur Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og reynir að skipta minnisblaði Gísla Freys í eins marga parta og hægt er. Þá getur Hanna Birna fengið auka krafta með því að sækja merki Sjálfstæðisflokksins og merki Lögreglunnar. Vilji maður leika Gísla Frey í þessum lekaleik er hægt að fara í „2 player“.
Leikinn má spila með því að fylgja hlekknum héðan.