Lífslíkur Íslendinga eru með þeim mestu í Evrópu og ungbarnadauði er minnstur hérlendis af öllum löndum álfunnar. Á árinu 2014 var meðalævilengd karla 80,6 ár og meðalævilengd kvenna 83,6 ár. Frá árinu 1986 hafa karlar bætt við sig rúmum sex árum í meðalævilengd en konur rúmlega fjórum árum. Á tíu ára tímabili, frá 2004 til 2013, var meðalungbarnadauði á Íslandi 1,9 barn af hverjum eitt þúsund lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu er ungbarnadauð jafn sjaldgæfur og hér. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar.
Karlar elstir á Íslandi og í Sviss
Þegar horft er á þróun meðalævilengdar yfir tíu ára tímabil, frá árinu 2004 til ársins 2013, þá lifa karlar á Íslandi og í Sviss lengst allra í Evrópu, eða 79,1 ár. Stysta meðalæviskeið karla í álfunni er Eystrasaltslöndunum. Karlar í Eistlandi verða að meðaltali 68,8 ára, í Lettlandi 66,4 ára og í Litháen 66,1 árs.
Konur verða hins vegar elstar í Frakklandi og á Spáni, eða 84,1 ára. Íslenskar konur eru þó skammt undan, en þær urðu að meðaltali 82,7 ára á tímabilinu. Konur lifa skemmst í Serbíu. eða í 76,1 ár að meðaltali.
Alls létust 2.049 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi í fyrra. Dánartíðnin var 6,3 látnir á hverja þúsund íbúa og ungbarnadauði vara 2,1 barn af hverjum eitt þúsund lifandi fæddum árið 2014, eða aðeins yfir meðaltali tíu áranna á undan.