Á árunum 2011 til 2014 skoðaði Ríkisskattstjóri málefni Íslendinga sem áttu eða voru með skattalegar ráðstafanir í tengslum við aflandsfélög í Lúxemborg, meðal annars með það fyrir augum að skattleggja arð og söluhagnað hlutabréfa sem runnið höfðu til félaganna. Skoðun Ríkisskattstjóra leiddi til þess að opinber gjöld vegna félaganna voru hækkuð um rúma 1,5 milljarða króna.
Samkvæmt skriflegu svari Skúla Eggerts Þórðarsonar, ríkisskattstjóra, við fyrirspurn Kjarnans voru níu slík mál tekin til skoðunar hjá embættinu árið 2011, sem leiddi til þess að opinber gjöld vegna fimm þeirra voru hækkuð um tæplega 41 milljón króna.
Árið 2012 skoðaði embætti ríkisskattstjóra 57 mál er tengdust aflandsfélögum Íslendinga, hjá 32 þeirra voru opinber gjöld hækkuð um ríflega 325 milljónir króna alls. Árið eftir voru 43 mál tekin til skoðunar, sem skilaði hækkun á opinberum gjöldum um ríflega milljarð hjá tólf þeirra.
Fjórtán mál voru tekin til skoðunar í fyrra, og voru opinber gjöld hjá átta þeirra hækkuð um tæplega 114 milljónir króna í kjölfarið.
Samanlagt skoðaði embætti ríkisskattstjóra 123 mál á árunum 2011 til 2014, og var skattbreytt hjá 57 aðilum fyrir 1.510 milljónir króna til hækkunar á opinberum gjöldum.
Eins og kunnugt er hyggst skattrannsóknarstjóri nú ganga til samninga við huldumann sem hefur boðið íslenskum stjórnvöldum að kaupa upplýsingar um eignir Íslendinga í erlendum skattaskjólum. Samkvæmt fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu eru 150 milljóna króna verðmiði á upplýsingunum.