Rúmlega 500 félagsmenn í BHM munu byrja verkfallsaðgerðir á morgun, en framkvæmdastjóri rannsóknarsviðs Landspítalans, Óskar Sesar Reykdalsson, segir allt stefna í að áhrifin verði jafnmikil og áhrifin af læknaverkfallinu, jafnvel meiri. Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld.
Dómur Félagsdóms um lögmæti verkfallanna féll í Héraðsdómi Reykjavíkur síðdegis í dag, og voru boðuð verkföll dæmd lögmæt. Íslenska ríkið taldi boðun verkfallanna ólögmæta, þar sem einungis félagsmenn á einstökum stofnunum greiddu atkvæði um þau. Undir þetta tók Félagsdómur ekki.
Boðað verkfall 135 ljósmæðra á Landspítalanum er því lögmætt en þær hafa boðað verkföll á þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum frá og með morgundeginum. Þá er verkfall 75 náttúrufræðinga á spítalanum, sem hefst á morgun, einnig lögmætt. Þau verkföll bætast við verkföll 108 geislafræðinga og 215 lífeindafræðinga sem leggja niður störf á morgun. Um 533 starfsmenn á Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum leggja því niður störf á morgun, að því er fram kom í fréttum RÚV.
Læknaverkfallinu lauk með því að stjórnvöld féllust á að hækka laun lækna um meira en 20 prósent.