Útskrift af frægu símtali Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra, og Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, frá 6. október 2008, varðandi 500 milljóna evru þrautavaralán Seðlabankans til Kaupþings, hefur farið víða í stjórnsýslunni. Tap skattgreiðenda vegna lánveitingarinnar nemur um 35 milljörðum króna.
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál fékk útskrift af símtalinu
Fréttastofa RÚV óskaði eftir því árið 2012 að Seðlabankinn léti umrædda hljóðupptöku af höndum, en bankinn synjaði beiðni fréttastofunnar um afhendingu upptökunnar. Hljóðupptakan væri undanskilin upplýsingalögum vegna þagnarskylduákvæða í lögum um Seðlabankann. Fréttastofan kærði synjunina til Úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í úrskurði nefndarinnar er synjun Seðlabankans staðfest, en þar kemur fram að bankinn hafi sent Úrskurðarnefndinni afrit af útskrift símtalsins í trúnaði, ásamt bréfi þar sem Seðlabankinn gerði athugasemdir við kæru málsins.
Á þessum tíma áttu sæti í Úrskurðarnefnd um upplýsingamál; Trausti Fannar Valsson lögfræðingur, sem jafnframt var formaður nefndarinnar, Friðgeir Björnsson fyrrverandi dómstjóri, og Sigurveig Jónsdóttir blaðamaður.
Davíð Oddsson, fyrrverandi bankastjóri Seðlabanka Íslands, og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Umboðsmaður Alþingis kynnti sér innihald símtalsins
Fréttastofa RÚV vísaði úrskurði nefndarinnar til Umboðsmanns Alþingis, sem gerði ekki athugasemd við að Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefði synjað fréttastofunnar um aðgang að hljóðupptöku að fyrrgreindu símtali. Í niðurstöðu Umboðsmanns kemur fram að embættinu hafi sömuleiðis borist útskrift af símtalinu.
Þá hefur Kjarninn heimildir fyrir því að útskrift af símtali Davíðs og Geirs hafi verið sent Forsætisráðuneytinu.
Fjárlaganefnd Alþingis sótti fast á sínum tíma að fá afhenda sjálfa hljóðupptökuna af símtalinu, til að glöggva sig á því hvernig staðið var að lánveitingunni til Kaupþings, án árangurs. Seðlabankinn heimilaði að lokum nefndarmönnum fjárlaganefndar að lesa útskriftina af símtalinu á sérstökum fundi með fulltrúum Seðlabankans. Nefndarmenn fengu hins vegar hvorki að halda eftir eintökum af útskriftinni, né vitna til hennar í opinberum skýrslum.
Geir H. Haarde neitar að aflétta trúnaði af hljóðupptökunni
Afhending á upptöku símtalsins hefur strandað á Geir H. Haarde fyrrverandi forsætisráðherra. Í viðtali í sjónvarpsþættinum Eyjunni á dögunum, ítrekaði Geir afstöðu sína til þess að trúnaði á símtalinu yrði ekki aflétt.
„Þetta samtal, það er búið að vera að magna það upp. Ómerkilegir stjórnmálamenn sem hafa verið að reyna að gera það að einhverju aðalatriði. Þetta samtal var tekið upp, reyndar ekki með minni vitund. Ég vil ekki birta það því ég tel að það eigi ekki að hlera eða taka upp samtöl við forsætisráðherrann við svona aðstæður. Þá geta menn bara komið seinna og reynt að koma á menn höggi vegna þess," sagði Geir H. Haarde í þættinum aðspurður um hljóðupptökuna.