Í vikunni fór fram ráðstefnan Slush Play sem er alþjóðleg ráðstefna sem fjallar um sýndarveruleika (VR) og leikjaþróun. Á ráðstefnunni héldu fjölmargir erlendir aðilar erindi, og íslensk fyrirtæki kynntu sig og sínar vörur.
Segja má að Slush Play sé eitt af því sem ýtir undir hugmynd sem hefur verið rædd í heimi sprota og tæknifyrirtækja á Íslandi nýverið: að Ísland geri tilraun til að verða vagga sýndarveruleikaþróunar.
Til að ræða þessi mál fékk Norðurskautið Stefaníu G. Halldórsdóttur í heimsókn. Stefanía er nýkomin til Íslands eftir nokkurra ára starf hjá CCP í Kína (það mætti segja að henni hafi verið shanghaiað hingað heim 🙃). Hún mun taka við sem framkvæmdastjóri CCP á Íslandi.
CCP, sem gerði tölvuleikinn EVE, fékk í fyrra $30m fjárfestingu frá erlendum sjóðum, og hefur þegar gefið út tvo tölvuleiki fyrir sýndarveruleika. Félagið er með einn leik í framleiðslu sem hefur verið tilkynntur, og önnur rannsóknarverkefni.
Í þættinum spjalla Kristinn og Stefanía um CCP og hennar störf þar, sýndarveruleika og þróun hans, og möguleika Íslands á að verða vagga fyrir sýndarveruleika. Aðspurð um möguleika þess sagði hún „Ég sé ekkert því til fyrirstöðu.“