Mikið er ég glaður að verkfalli lækna sé lokið. Ég er búinn að vera svo hræddur um að veikjast að ég þorði ekki einu sinni að faðma mína eigin móður um jólin því mér fannst hún eitthvað veikluleg. Þetta kemur reyndar pínulítið á óvart af því það er varla vika síðan fjármálaráðherra var mættur í fréttirnar – svo gallsúr að ég þurfti að lækka í sjónvarpinu til að finna ekki lyktina af honum – að dylgja um meinta græðgi þessara elítulækna sem hann vildi meina að væru að maka hver annan upp úr truffluolíu og drekka Dom Perignon úr nashyrningshornum.
Mín upplifun af því að hafa búið með lækni er reyndar sú að þegar þeir eru ekki að vinna á daginn, kvöldin, næturnar eða einhverja skelfilega blöndu af þessu þrennu þá eru þeir fyrst og fremst sitjandi með stríðshrjáð allir-í-bátana augnaráð eða sofandi í fimm fermetra herbergi í nokkrar klukkustundir, líklega dreymandi norskt fjarðaloft og sænska lerkisveppi, til þess eins að vakna við vekjaraklukku sem hljómar eins og loftvarnarlúður og hefja þetta ferli allt upp á nýtt.
Eftir þetta viðtal hefur einhver úr samninganefndinni líklega sett hauspoka yfir Bjarna, troðið honum í fjólubláan Abercrombie & Fitch-skíðagalla og sent hann með sjúkraflugi beint í svissnesku alpana svo hægt væri að klára þetta mál. Á meðan á öllu þessu stóð var Kristján Þór Júlíusson svo hinum megin við götuna með gervigleraugu með áföstu nefi og yfirvaraskeggi að fylgjast með í gegn um tvö útklippt göt á dagblaði sem hann þóttist vera að lesa, vonandi að enginn myndi muna að hann væri ennþá heilbrigðisráðherra.
Öfgamenn í leiðindum
Vöfflujárnið var varla kólnað hjá ríkissáttasemjara þegar umræðan var komin á fyrirsjáanlegar og hræðilegar slóðir. Karl Garðarson, öfgamaður í leiðindum, greip þennan þvala bolta á lofti og hrópaði að nú myndu fleiri stéttir vilja bita af kökunni, verðbólgudraugurinn yrði særður úr gröf sinni og endalok hins margumrædda stöðugleika, og líklega heimsins alls, væru yfirvofandi.
Þetta er svo sem ekkert nýtt. Samtök atvinnulífsins hafa gert það að árlegum sið að gefa út klámfengið myndband þar sem litríkar teiknmyndafígúrur tala við almenning eins og hann sé greindarskertur um það af hverju það sé öllum fyrir bestu að láglaunastéttir haldi áfram að vera fátækar. Það verða allir að taka höndum saman og viðhalda þeim árangri í stöðugleika sem náðst hefur síðustu ár. Seðlabankastjóri tekur í sama streng og auðvitað fjármálaráðherra líka. Hinn heilaga stöðugleika ber að vernda líkt og biskup sjálfur hafi blessað hann. Ég hef reyndar aldrei skilið af hverju það eru lægstu stéttirnar sem þurfa að halda uppi þessum valta Jenga-turni sem hagkerfið virðist vera. Það virðist samt engu skipta hversu mikið af andafitu efri þrepin troða í sig – það ógnar engum stöðugleika – en um leið og skúringakona á Akranesi biður um meira en 2,8% hækkun á 214.000 krónurnar sínar þá leggjast allar plágur Egyptalands á okkur. Þetta er stöðugleiki eins og beinaberir leggir á erítreskum þræl sem heldur uppi akfeitum rómverskum hedónista sem er sífellt að skamma hann fyrir að standa ekki í lappirnar; kerfi sem stendur og fellur með því að verkafólk hafi engar ráðastöfunartekjur er fúndamentallí galið.
Nu-Skin stórlax og pakkavæddur heilbrigðisrekstur
Það er þessi hugmyndafræði sem er ástæðan fyrir því að baráttunni um heilbrigðiskerfið, og í raun velferðarkerfið allt, er hvergi nærri lokið. Þvert á móti eru sífellt fleiri sem þykjast finna nályktina í loftinu og sleikja út um. Á ársfundi áðurnefndra Samtaka atvinnulífsins hélt Ásdís Halla Bragadóttir, Nu Skin-stórlax, fyrrum bæjarstjóri Garðabæjar og núverandi frömuður í gróða á gömlu fólki, þrumandi ræðu um hvernig Ísland væri heimsmethafi í miðstýringu, hvernig einokun íslenska ríkisins væri eins og kúbversk vindlaframleiðsla og að Albanía væri ljósárum á undan okkur í valfrelsi í heilbrigðisrekstri og tók þar sérstaklega dæmi um hvernig verðandi albanskir foreldrar gætu valið milli gullpakka, silfurpakka og hefðbundins pakka þegar kæmi að fæðingarþjónustu.
Þetta er auðvitað stórgóð hugmynd sem auðvelt væri að yfirfæra á íslenskt fyrirmyndasamfélag framtíðarinnar. Ímyndið ykkur hvíttennta og brosandi foreldra ganga út af einkarekna spítalanum með Nu Skin-rakakremsmurðan hvítvoðung vafinn inn í kasmírteppi tottandi ergónómískt snuð úr hágæða náttúrulegum trefjaefnum – allt í boði gullpakkans. Ef þú ert ekki með alveg jafnmikið á milli handanna, eða bara að spara fyrir nýjum iPhone, geturðu alltaf valið silfurpakkann sem er alveg fínn líka. Hann gefur manni sex tíma náðuga legu í sjúkrarúmi en öll börn eru tekin með sogklukku til þess að spara tíma og auka framleiðni. Foreldrar bera sjálfir ábyrgð á öllum þrifum. Svo ef þú ert með 214.000 krónur í grunnlaun á mánuði hefurðu líklega bara efni á venjulega pakkanum – en í honum færðu heimsendan kassa með sprittbrúsa, spegli og sauðburðartöng.
Svo er algjör óþarfi að binda sig við þrjá pakka. Það væri til dæmis hægt að bæta við fjölskyldupakkanum þar sem þú færð allt sem er í gullpakkanum auk beinmergsskipta fyrir einn fjölskyldumeðlim að eigin vali og amma gamla hoppar upp hjartaþræðingarlistann. Svo þegar einkarekna heilsuparadísin rennur óumflýjanlega saman við 365 miðla og VÍS þá verður hægt að fá tröllapakkann þar sem þú færð allt sem er í gull- og fjölskyldupökkunum, Krakkastöðina, Enska boltann, eldfjallatryggingu, 15 insúlínsprautur á mánuði fyrir litla sykursjúklinginn á heimilinu, 100 fríar mínútur í alla heimasíma og prest til þess að syngja ömmu ofan í flúormengaða moldina. Það er nefnilega svo mikilvægt í siðmenntuðu samfélagi að hafa val um það á hvern hátt þú lætur svindla á þér.
Núna verð ég að hætta áður en þetta verður svo langt að Eggert Skúlason skilur þetta ekki.