Eftir um sjö vikur verð ég pabbi. Á sónar virðist litla stelpan vera með alla fingur og tær. Hún er dugleg að sparka til skiptis í öll líffæri móður sinnar og þegar líður að háttatíma sest stelpan á þvagblöðru hennar og hossar sér, símígandi móður sinni til mikils ama og föður sínum til kátínu.
Það að eiga von á stelpu hefur verið áhugaverð upplifun. Í fyrstu var þetta mjög spennandi. Ég var fyrir löngu búinn að prufa allt dópið, nema stjórnmál og barneignir. Loksins eitthvað nýtt að gerast! Smám saman hafa hinsvegar bæst við spennuna undarleg ný áhugamál eins og taubleyjur og tungumál ungbarna í bland við tilfinningar eins og hreinan ótta, óvæntan metnað og aukna löngun til að leiðrétta kynbundið óréttlæti, hvar sem það birtist.
„This is a man’s world“ söng wifebeaterinn James Brown og grínaðist ekki með það í eina mínútu.
„This is a man’s world“ söng wifebeaterinn James Brown og grínaðist ekki með það í eina mínútu. Undir það tók starfsbróðir hans í tónlist og heimilisofbeldi John Lennon þegar hann sagði „Woman is the nigger of the world“. Ég held nefnilega að ef ég ætti von á strák þá væru tilfinningar mínar ólíkar. Af því að þá þyrfti ég ekki að hafa eins miklar áhyggjur af því að barnið mitt hlyti heftandi formótun eða yrði á annan hátt mismunað vegna kynferðis.
Ég var einu sinni forréttindaskíthæll
Ég hugsa oft um ömmu mína Helgu. Fædd árið 1930 úti í Elliðaey á Breiðafirði á þeim tíma þegar hennar frami fólst í því að fara í húsmæðraskóla og sjá um að ala upp fjóra stráka með öllu sem því fylgdi á meðan maðurinn hennar sinnti sínum frama. Hún hefur sagt mér að ef hún væri ung kona í dag þá hefði hún viljað mennta sig. Fara í fornleifafræði. Mér finnst frekar sorglegt að hún hafi aldrei haft tækifæri til þess. Hugsið ykkur allt þetta hæfileikaríka fólk, fast í þvingu feðraveldisins. Hversu marga Nóbelsverðlaunahafa ætli við höfum læst í dýflissu kynbundinna hlutverka?
Ég er t.a.m. alinn upp í þeirri trú að þrif og eldamennska séu störf konunnar. Að umsjá barna séu störf konunnar. Og að allt annað tilfallandi sem er leiðinlegt og launalaust séu störf konunnar. Ég ætla því að leggja mig fram við að láta dóttur mína sjá mig vinna að minnsta kosti helminginn af öllum tilfallandi heimilisstörfum. Til þess að hún geri sér grein fyrir því að kynbundin skipting á heimilisverkum eigi að vera jafnmikill hluti af fortíðinni og auðmýkt núverandi forsætisráðherra.
Ég var nefnilega einu sinni forréttindaskíthæll og naut í blindni þeirrra fríðinda sem skaufinn á mér ósjálfrátt veitti mér. Stundaði óvarið kynlíf án þess að hafa eina einustu áhyggju af þungunum. Sat á rassinum í óteljandi fjölda fjölskylduboða með öðrum frussandi pungum á meðan konurnar svitnuðu í eldhúsinu. (Þegar ég var sex ára spurði ég mömmu hvort við þyrftum ekki að redda henni þernu-skuplu. No joke.) Ég hef gripið frammí fyrir konum. Niðrað upplifanir þeirra. Kallað þær markleysur.
Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim?
Það tók mig tíma og vinnu að reyna að tæta utan af mér þetta mynstur, þó tægjurnar hangi ennþá á mér. Ég þurfti að læra það að ég byggi við forréttindi og hver þau væru. Svo þurfti ég reyna að klæða mig úr þeim. Í dag finnst mér fátt jafn hallærislegt og karlmennska. Bílar á stórum dekkjum, byssur og borar? Hvaða kjaftæði er þetta? Á ég að vera að betri í að stýra herjum og snúa stýrum af því ég er með pung?
Örvæntinagfullur faðir undirbýr dóttur fyrir heiminn
Þannig maður spyr sig, hvernig get ég, fyrrverandi karlremba og skíthæll, núverandi örvæntingafullur verðandi faðir, reynt að undirbúa dóttur mína fyrir þennan heim? Heim launamismunar. Heim þar sem kynbundið ofbeldi er jafn rótgróið, samfélagslegt krabbamein og Sjálfstæðisflokkurinn. Heim feðraveldisins.
Heim þar sem stelpum er sagt að vera hljóðar og þægar á meðan strákum er hrósað fyrir að vera hugrakkir og röggsamir. Þar sem stelpum er sagt að þær eigi að sýna ábyrgð á meðan strákar eru jú, og verða alltaf, strákar. Þar sem stelpur eiga helst að vera ósýnilegar og ef maður slysast til að sjá þær skulu þær ekki dirfast að vera illa málaðar, of mikið málaðar eða (guð forði þeim!) ómálaðar.
Staðreyndin er sú að dóttir mín mun lenda í því að einhver mun taka minna mark á henni einfaldlega vegna þess að hún er kvenkyns. Að einhver mun grípa frammí fyrir henni af því hún er kona. Að einhver mun vilja gera lítið úr henni vegna þess hvernig kynfæri hún er með. Þess vegna vona ég að þegar það gerist geti hún borið kennsl á þá hegðun sem kynbundna mismunun, fær um að segja viðkomandi að endurskoða afstöðu sína með orðunum “Far þú í rassgat, risaeðla.” Það er nógu mikið traðkað á konum þó ég venji ekki dóttur mína við það að sætta sig kurteisislega við mismuninn.
Orð eru álög
En það er einmitt á okkar ábyrgð, sem berum kennsl á óréttlætið, að snúa því við. Að kenna afkvæmum okkar, hvort sem þau eru með typpi eða píku, að taka við drullugu jafnréttis-keflinu og halda áfram að reyna að þrífa af því blóðið og sæðið.
Til dæmis mun dóttir mín, ef ekkert verður að gert, aðeins vera skráð í þjóðskrá sem Bragadóttir. Þrátt fyrir að móðir hennar hafi bókstaflega borið hitann og þungann af því að hýsa þennan litla leigjanda í líkama sínum. Það finnst mér sjúklega hallærisleg karlremba og frekja. Við höfum því ákveðið að láta hana bera nöfnin okkar beggja. Einnig ætlum við að reyna að forðast að skýra hana nafni sem er afleiða af karlmannsnafni: Guðmundína, Magnúsína eða Ketilríður. (Ekki það að Ketilríður sé karlmannsafleiða, það er bara algjörlega hræðilegt nafn).
Orð eru álög, og með þeim sköpum við upplifun, barnanna og okkar. Þess vegna ætla ég að sleppa því, í kringum hana og allstaðar, að tala um kvenlegar og karllægar kenndir sem slæmar og góðar. Allt bara er - hættum að gefa öllu í umhverfi okkar einkunn. Mér sýnist nefnilega ekki vera til neitt sem heitir karlmannlegt og kvenlegt nema kynfærin á okkur, og meira að segja þau eru flæðandi.
Mér sýnist nefnilega ekki vera til neitt sem heitir karlmannlegt og kvenlegt nema kynfærin á okkur, og meira að segja þau eru flæðandi.
Staðreyndin er hinsvegar sú að á endanum er ég að fara að fá einstakling í hendurnar með sínar eigin skoðanir og sjálfstæðan vilja. Tilbúin að fara rakleiðis á skjön við allar þær háleitu hugmyndir sem pabbi hennar hafði um fullkomna félagslega mótun hennar. Allt í einu er uppáhalds liturinn hennar bleikur og hún vill vera prinsessa sem langar bara í sterkan mann sem gengur í jakkafötum með skjalatösku og sér um hana á meðan hún puntar heimilið hlustandi á Nicki Minaj syngja um rassgatið á sér. Þá er náttúrulega lítið sem ég get gert annað en að yppa öxlum yfir tilraun minni og segja „Ojæja, ég allavega reyndi.“