Í þá gömlu og misgóðu daga þegar ég var einhleyp höfðu foreldrar mínir miklar áhyggjur af því að ég væri að fæla frá mér menn, ekki með andfýlu, táfýlu, svitalykt, truntuskap, tussuhætti eða kynkulda - nei, heldur væri ég að fæla þá frá mér með svokölluðum látum. Oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sagði mamma: „En ef þú prófar, bara í smástund, að vera hæverska stúlkan?“ Með þessu átti hún við að ég ætti að lækka í mér, hætta að tala um allt þetta neðanbeltis sem mér finnst svo gaman að grína með og tala um á hreinskilinn hátt, hætta að láta á mér bera og svo framvegis. Móðir mín, sú sama og margtuggði ofan í mig að það væri asnalegt að vera feimin.
Ég hef strögglað og lagt á mig mikla vinnu við það að skrifa þessar blessuðu spurningar. Ég vildi bara fá kredit þar sem ég átti það sannarlega, og innilega skilið.
Ef ég hefði látið af þessu verða - og eitthvað aumingjans grey hefði fallið fyrir þessu atriði, hvert væri þá framhaldið? Líklega þyrfti ég að hætta öllu sirkusbrölti - hvað þá fullorðinssirkusbrölti, danskennslan (sem snýst að miklu leyti um grindarbotn og almennan þokka) hyrfi úr lífi mínu og karaokekvöldin sömuleiðis. Myndi ég halda leikritinu áfram og lokast í eigin óhamingju en fá við og við útrás í hvítvíni með stelpunum? Eða myndu múrarnir falla og manninum yrði ljóst hvers eðlis væri, að hann væri lofaður skellibjöllu sem enginn hefur hemil á? Foreldrar mínir hvöttu mig, meira í gríni en alvöru (vona ég í það minnsta) að skrúfa niður í mér. Setja drauma mína og atvinnutækifæri á hold (les: hóld en ekki hold). Allt fyrir ástina. Án þess að gera lítið úr einum eða neinum er lífsförunautur og reglulegar samfarir krem á þá dásamlegu köku sem það er að vera sjálfri sér nóg.
„Róleg, skilurðu“
Nýlega, og á sama tíma og í fyrra, stóð ég í örlitlu stappi við menn á netinu sem höfðu rangt fyrir sér. Ég benti á þá staðreynd að við dómararnir í Gettu betur, karlinn og konan, værum jafningjar: við semdum spurningarnar saman. Ég væri ekki, þó það hefði verið æskudraumur minn, stigavörður. „Hvað er að því að vera stigavörður?“ Ekkert, ég bara er það ekki. Meira að segja sagði frændi minn í fyrra, mitt eigið hold og blóð: „Það er nú merkilegt að á þessum tímum skuli eina konan í mynd í Gettu betur vera stigavörðurinn.” Ok, hann er fjarskyldur. Ég hef strögglað og lagt á mig mikla vinnu við það að skrifa þessar blessuðu spurningar. Ég vildi bara fá kredit þar sem ég átti það sannarlega, og innilega skilið. Ekki leið á löngu þar til ég fékk skilaboð um að halda mig hæga. Ég skrifaði feisbúkkstatus um málið sem einhverjir vefmiðlar pikkuðu upp, eins og þeirra er von og vísa. „Ok, en samt skilurðu, róleg að fara með málið í fréttirnar.“ Ég gerði það ekki, ég er bara svo fjári merkilegur pappír að tíst og statusar mínir eru fréttaefni. Sorrí með mig.
Salka Sól hefur sigrað hjarta mitt. Ég hef horft á júróvisjónrappið hennar margoft, bæði auglýsinguna og læv-ið og ég dýrka það.
Fyrir fjórum árum, í leit minni að ástinni á Kaffibarnum náði ungur maður augnsambandi við mig við barinn. Ég spenntist öll upp, en á sama tíma hugsaði ég hvernig ég gæti gabbað þennan í að halda að ég væri hæversk, lítillát, en jafnframt ljúf og kát. Maðurinn gekk til mín. „Mig langaði bara að segja þér að þú ert ofboðslega heillandi og falleg stúlka.” Ó, híhí, hvað geri ég núna? Missi vasaklútinn minn? „Og, ég myndi reyna við þig, ef…“ Ef hvað? Er ég með eitthvað í tönnunum? „Þú værir ekki svona útum allt, alltaf, alls staðar.“ Ég horfði á hann og hristi hausinn, og fór heim og fékk mér pizzu. Á þessu tíma vann ég við Kastljósið. Samhliða því tók ég þátt í sirkussýningum og kenndi dans. Störf mín fólust í því að a) vera heima hjá honum í sjónvarpinu og b) koma því sem ég hafði upp á að bjóða til skila svo fólk skráði sig á námskeið og keypti sér sirkusmiða eða bókaði mig og félaga mína í gigg. Þannig borgaði ég leiguna, matinn og bjórinn eða géogtéið sem ég var með í höndinni þetta kvöld.
Skuggakonan
Ragga Eiríks, hjúkrunarfræðingur, blaðamaður og vinkona mín, spurði opinnar spurningar rétt fyrir áramót um hvaða konur væru þær kynþokkafyllstu á landinu. Bubbi Morthens átti svar sem situr í mér. Hann vildi tilnefna: „Konuna sem stendur í skugganum mér þykir hún mest æsandi.“ Ég vona að feimnar skuggakonur hafi tekið þetta til sín og fundið til þokka síns, frekar en að aðrar haldi að þær þurfi að láta minna á sér bera. Ég vona líka að Bubbi sé búinn að endurskoða þetta eftir að hafa varið heilum þætti af Ástinni og leigumarkaðinum uppí hjá Sögu Garðarsdóttur og Uglu Egilsdóttur.
Salka Sól hefur sigrað hjarta mitt. Ég hef horft á júróvisjónrappið hennar margoft, bæði auglýsinguna og læv-ið og ég dýrka það. Þegar því var deilt á fréttaveituna hjá mér sá ég fjölmörg komment á þá leið að þetta gæti nú ekki verið gott - að ofnota hana svona, að hún myndi brenna út og sitthvað fleira. Nei, hún mun ekki brenna út. Hún á enn fleiri hæfileika uppi í erminni. Hún er söngkona ársins 2014 og spilar á öll hljóðfæri sem henni eru rétt. Hún er í skemmtilegri og vinsælli hljómsveit og er frábær fyrirmynd ungra stúlkna. Ég hef enn ekki séð jafnmörg komment um ofnotkun fjölmiðlafólks í háa herrans tíð, eða að þessir fjölmiðlamenn séu að brenna út og þurfi að hvíla sig: Egill Helgason, Andri Freyr Viðarsson, Logi Bergmann og Ólafur Páll Gunnarsson. Þessa ágætu menn nefni ég bara því þeir eru að djöggla fleiri en einu verkefni á fjölmiðlavettvangi. Eðlilega er verið að nýta hana í sem flest - svona rétt á meðan hún stoppar við á RÚV. Dreifi hún sér svo sem víðast.
Og aðrar konur líka. Veri þær sýnilegri á öllum mögulegum vettvangi og fæli sem flesta frá sér sem af þeim stendur ógn. Bið að heilsa hæversku stúlkunum og skuggakonunum. So long sistas.