Þegar litið er yfir árið 2015 út frá borgarmálunum kemur rekstur borgarinnar óneitanlega upp sem eitt af stóru málunum. Þeir 9 borgarfulltrúar frá fjórum flokkum sem mynduðu meirihlutann í Reykjavíkurborg á síðasta ári hafa ekki náð tökum á rekstri borgarsjóðs. Þau tóku við slæmu eigin búi því Samfylking og Björt framtíð/Besti flokkurinn voru í meirihluta 2010-2014 og ráku borgina með tapi öll fjögur árin. Nú hafa þau bætt um betur með áframhaldandi rekstrartapi en hærri tölum. Skuldir borgarsjóðs aukast um 30% á tveimur árum.
Þegar þetta er rætt hefur borgarstjóri iðulega bent á að öll sveitarfélög eigi í rekstrarvandræðum. Sem er rétt að hluta til. Rekstur annarra sveitarfélaga hefur þyngst en þegar borgin er borin saman við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu kemur hún verst út. Og það ætti auðvitað ekki að þurfa að bera Reykjavíkurborg saman við neitt annað sveitarfélag á Íslandi því hún er svo risastór miðað við öll hin íslensku sveitarfélögin og ætti að vera langbest rekna sveitarfélagið. Við í minnihlutanum ætlum að gera allt sem við getum til að hjálpa meirihlutanum að rétta reksturinn við enda skylda okkar gagnvart borgarbúum. Verst hvað þau eru gjörn á að fella tillögur frá okkur.
Hinir óspjölluðu Píratar
Og talandi um meirihlutann í Reykjavík. Píratar eru í meirihlutanum en það virðist oft koma fólki á óvart því Píratar eiga að vera að öllu leyti svo óspjallaðir í stjórnmálunum. Jæja a.m.k. taka Píratar þátt í ákvörðunum meirihlutans í Reykjavík. Sama hvort það er að hlusta ekki á varnaðarorð varðandi skipulagsmál Reykjavíkurflugvallar, hvað þá að taka mark á stærstu undirskriftarlistum sem um getur í skipulagsmálum. Eða taka ákvörðun um að skerða þjónustu við eldri borgara í sumum hverfum en öðrum ekki. Eða að sniðganga vörur frá Ísrael sem meirihlutinn samþykkti reyndar að lokum að draga til baka eftir að við borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fengum aukafund í borgarstjórn. Eða endalaust klúður í ferðaþjónustu fatlaðs fólks og málefni tónlistarskólanna í borginni. Þetta eru bara nokkur dæmi um illa unnin verkefni. Það er ekki endalaus ánægja með þennan meirihluta og rétt að rifja upp að hann er skipaður borgarfulltrúum úr Samfylkingu, Bjartri framtíð, Vinstri grænum og Pírötum.
Málefni fatlaðs fólks
Mjög jákvætt var að samningar skyldu að lokum nást milli sveitarfélaga og ríkisins um rétta hlutdeild sveitarfélaga í tekjum hins opinbera til að reka málaflokk fatlaðs fólks en það verkefni kom til sveitarfélaganna árið 2011. Það kom í hlut undirritaðs að fara fyrir þeim samningum f.h. sveitarfélaganna og tel ég að vel hafi tekist að lokum. Samningurinn var undirritaður fyrir stuttu við stutta en hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu við Hverfisgötu. Með honum mun rekstur sveitarfélaganna og þar með borgarinnar eiga betri möguleika. Gott að hafa getað lagt þar ákveðið lóð á vogarskálarnar í þessu samstarfverkefni sem margt hæfileikaríkt fólk kom að.
Verkefni minnihlutans
Það er hlutverk minnihluta hverju sinni að benda á það sem betur má fara til að fá fram þroskaðri umræðu og vandaðri ákvarðanatöku. Við höfum lagt okkur fram um að svo megi verða við sem skipum minnihlutann en við erum 6 fulltrúar alls. Fjögur frá Sjálfstæðisflokki og tvær frá Framsókn og flugvallarvinum. Það hafa ekki mörg mál verið svokölluð ,,upphlaupamál“ eins og á Alþingi þetta árið og kjósendur segjast hafa fengið sig fullsadda á. Samt er það þannig að vekja þarf athygli á málum og mega reykvískir kjósendur reikna með að við í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins munum frekar herða okkur í því á nýju ári. Það er hægt að vera málefnalegur og gagnrýninn og á því þarf meirihluti flokkanna fjögurra í borgarstjórn Reykjavíkur svo sannarlega að halda.
Við höfum fengið að fylgjast með jólatrjáafellingum borgarstjóra nánast í beinni útsendingu af og til í ár og í fyrra. Það er mikil orka búin að fara í blessuð jólatrén. Fara til Noregs og velja tré. Það stóðst ekki veðrið frekar en í fyrra og borgarstjóri fór í Heiðmörk með skellinöðrusögina og felldi á báða bóga. Tré fyrir okkur Reykvíkinga og fyrir vini okkar í Þórshöfn í Færeyjum sem fulltrúi meirihlutans fylgdi þangað út. Í fyrra var það forseti borgarstjórnar í ár var það oddviti Pírata í borginni. Jákvætt yfirbragð en þetta er auðvitað búið að kosta helling af peningum sem ekki verða notaðir í annað á meðan.
Hjálpum öðrum
Við notum gervijólatréð okkar í 27. skipti þessi jólin þannig að það hlýtur að vera orðið umhverfisvænt eftir svona mikla notkun. Það er hluti af hefðinni hjá okkur að nota þetta sama tré með svipuðum skreytingum ár frá ári. Sumar eru skylda eins og svo margt annað sem hefðin skapar og mótar hjá fjölskyldum. Það er notalegt eins og jólin eru sem betur fer hjá flestum fjölskyldum. Hugsum til hvors annars en ekki síst til þeirra sem eiga um sárt að binda á þessum tíma sem öðrum. Látum ekki nægja að hugsa heldur látum af hendi rakna það sem við getum til að hjálpa öðrum sem á hjálp þurfa að halda. Það skilar okkur hinum sanna jólaanda.